
Boeing Max komin í þjónustu hjá Icelandair eftir langt hlé. Skjáskot
Við hér örlítið á eftir enda sjónvarpsgláp lítt á dagskrá svona almennt en um helgina birti Stöð 2 myndbandið sem hér sést að neðan. Þar fær Ísland í dag að fljóta með í klukkustundar flugrúnti á þessum frægu Max-vélum.
Eðli máls samkvæmt á Ísland í dag ekkert skylt við fjölmiðlun. Meira í ætt við heilaþvott því þar ekki fjallað um neitt annað en „stórkostlega” hluti sem fólk og eða fyrirtæki eru að gera. Allt er alltaf jafn frábært og hjá Emmet í Legó Movie.
Og nákvæmlega þar fór Stöð 2 illa að ráði sínu. Þeir hefðu átt að senda fréttastofuna og reyna að varpa ljósi á hvers vegna sex hundruð manns létu lífið í flugslysum glænýrra Boeing Max véla og hvað nákvæmlega Boeing hefur síðan gert til að rellan hefur fengið flugleyfi á nýjan leik.
Í stað þess að röfla innantómt bull við forstjórann, flugstjóra og farþega útsýnisflugsins um kosti rellunnar og hvert fólk langi í frí á næstunni hefði þáttastjórnandi átt að taka þriðja sætið í flugstjórnarklefanum í fluginu og spyrja flugmennina í þaula á meðan um hvað hefur breyst í vélunum og jafnvel fengið að sjá hvernig þeir hefðu brugðist við hugsanlegum skakkaföllum.
Jú, vissulega hafa bæði evrópsk, asísk og bandarísk flugmálayfirvöld gefið Max-vélunum grænt ljós en merkir það að allt sé í himnalagi?
Varla það.
Sömu flugmálayfirvöld töldu vélina súper-dúper örugga áður en sex hundruð manns létu lífið í þessum rellum fyrir tveimur árum síðan. Þið fyrirgefið okkur ef við tökum ekki lengur sérstakt mark á „sérfræðingunum” hjá flugmálayfirvöldum. Ekki hvað síst eftir að nauðlenda þurfti Boeing-Max American Airlines í Flórída fyrir aðeins þremur dögum síðan…
En kannski greiddi Icelandair Stöð 2 fyrir svona kynningarmyndband. Þá er skiljanlegt hvers vegna allt klabbið er fjas og fiður. En þá þarf Stöð 2 líka að taka það sérstaklega fram.







