Skip to main content

Okkur hjá Fararheill er spurn hvort ritstjórn Frjálsrar verslunar skammist sín ekki niður í rassgat. Sú ritstjórn valdi Andra Má Ingólfsson, yfirmann Primera Air, mann ársins árið 2007. Það er sami einstaklingur og fer fram á að við Íslendingar borgum 320 prósent hærra verð til Alicante en stendur Dönum til boða.

Forstjóri og aðaleigandi Primera Air hér lengst til vinstri. Mynd AviaPro

Fátt gott verður sagt um son Ingólfs Guðbrandssonar, sem á og rekur Primera Air Group sem meðal annars ferðaskrifstofan Heimsferðir er hluti af. Það batterí hafnar ekki aðeins öllum bótakröfum allra viðskiptavina sem telja á sinn hlut gengið heldur og taka áratugi að greiða tilskyldar bætur og finnst greinilega hið besta mál að vera á svörtum listum víðs vegar um heiminn.

Sú var tíðin að flugfélagið, sem í denn tíð var íslenskt, var raunverulega í samkeppnisformi og bauð meðal annars reglulega upp á flug til Billund í Danmörku undir tíu þúsund krónur aðra leið svo fátt sé nefnt.

En svo varð forstjórinn græðginni að bráð. Hann flutti fyrirtækið til Lettlands þar sem lög og reglur er teygjanlegt hugtak og feitur seðill á réttum stöðum getur skipt sköpum fyrir flugfélag. Sömuleiðis eru laun í Lettlandi æði mikið lægri en þau gerast á Íslandinu góða. Allt frábært ef ætlunin er að græða heil ósköp. Verra ef hugmyndin er að gera fyrirtækið leiðandi í góðum viðskiptaháttum.

Burtséð frá græðgi Andra Más Ingólfssonar þá er aldeilis merkilegt að fyrirtæki sem er aðeins stórt og mikið vegna þess að Íslendingar sýndu því lit um áraraðir skuli skíta feitt og mikið á sömu Íslendinga nú þegar fyrirtækið er komið í alvöru samkeppni.

Það sést glögglega sé litið á verð á flugi með Primera Air frá Íslandi borið saman við verð á flugi með Primera Air annars staðar í Evrópu. Besta mál að okra á pakkinu sem kom fyrirtækinu á laggirnar og leyfa öllum öðrum að njóta í staðinn.

Til dæmis Dönum. Þeim gefst færi á að kaupa flug aðra leið með Primera Air til Alicante á Spáni fyrir heilar 4.800 krónur. Íslendingarnir? Lágmarksverð fyrir það pakk með Primera Air: 19.999 krónur. Sem er 317% verðmunur hvorki meira né minna. Vissulega er flugið klukkustund skemur frá Köben en Keflavík en 317 prósenta verðmunur er álíka eðlilegt og að jólasveinar komi til byggða í júlí.

Er það eina dæmið? Ekki aldeilis. Sértu Dani þá getur þú skottast aðra leið til Malaga í Andalúsíu fyrir heilar 5.100 krónur. Íslendingar mega hins vegar éta það sem úti frýs og lægsta mögulega fargjald aðra leið fyrir þá til Malaga er 27.999 krónur. Það er verðmunur upp á 449% hvorki meira né minna. Víst er flugið rúmlega klukkustund lengra en 449 prósenta verðmunur er samt sem áður bankarán.

Sért þú að hrista höfuðið yfir grimmdinni í okkur gagnvart Primera Air er ágætt að hafa í huga að ofangreind dæmi miðast við LÁGMARKSVERÐ í boði. Með öðrum orðum, þá er hér verið að selja fjögur til fimm sæti á lágmarksverði í báðum tilvikum. Þegar þau eru seld hækkar prísinn duglega og sérstaklega duglega fyrir Íslendinga eins og hver og einn getur gengið úr skugga um á íslenskum vef Primera Air og dönskum.

Það er sem sagt verið að hafa okkur að fíflum af hálfu Primera Air og þá höfum við enn ekki sagt aukatekið orð um að fyrirtækið hefur enn ekki gert upp við þá farþega sína sem í ágúst 2015 þurftu að takast á við sólarhrings langa heimferð frá Tenerife.

Þvílíkt skítabatterí að enginn með réttu ráði ætti að spreða peningum í skíthæl á borð við Andra Má Ingólfsson.

Primera Air fyrir Dani

Og skítatilboð til Íslendinga….

Hættum viðskiptum við fyrirtæki sem er til vegna okkar viðskipta en sýnir okkur feita löngutöng fyrir vikið meðan aðrir njóta kósíheita…