Það sem fer upp kemur niður. Það gilti um Rómarveldi til forna, alla snillingana í íslensku bönkunum og fylgi Miðflokksins. Og já, Wow Air líka.

Glingur, glamúr, flottheit og endalaus uppgangur. En ekki alveg. Skjáskot
Illu heilli er Skúli Mogensen, eigandi Wow Air, nú að missa allt úr höndum sér. Eina leiðin út er að gefa nánast fyrirtækið erlendum fjárfestingarsjóði sem mun að öllum líkindum hvorki virða íslensk lög eða reglur né heldur ráða innlent starfsfólk með mannsæmandi laun. Það reglan frekar en undantekning hjá hinum bandaríska sjóð Indigo Partners, sem er eini aðilinn sem virðist hafa áhuga á að bjarga því sem bjargað verður hjá Wow Air.
Fleiri uppsagnir líklegar
Að því gefnu að herra Mogensen nái samkomulagi við Indigo Partners, má slá föstu að frekari uppsagnir íslensks starfsfólks séu á döfinni. Slæmt að heyra en ekki þarf mikið vit í kolli til að vita að bandarískur fjárfestingarsjóður sér ekkert jákvætt við að greiða mannsæmandi laun. Þaðan af síður mannsæmandi ÍSLENSK laun. Slíkt étur inn í hugsanlegan hagnað og gerir fjárfestinguna neikvæða. Nægir að líta til byrjunarlauna flugmanna hjá Wizz Air, sem er í eigu Indigo Partners, sem slefa rétta yfir hálfa milljón króna per mánuð. Til samanburðar eru reyndir flugmenn Icelandair að taka heim mánaðarlega tvær og þrjár milljónir króna.
Mogensen axlar ábyrgð
Í bréfi til starfsmanna Wow Air harmar Skúli Mogensen þá stöðu sem upp er komin en er þó nógu stór maður til að viðurkenna að hörmungarstaða sé einungis honum sjálfum um að kenna. Sem er 100 prósent rétt en kemur á óvart því kauði sagði í lok ágúst að hann væri sannarlega með plan B, C og D ef hlutafjárútboð sem þá stóð fyrir dyrum gengi ekki vel. Ekki nema plönin hafi verið B) halda raklaust á fund helsta samkeppnisaðilans eða C) gefa bandarískum milljarðamæringum fyrirtækið með húð og hári. Óljóst hvað plan C var miðað við stór orð Mogensen.
Langflug ávísun á tap og tæringu
Fyrir utan þá afskaplega kjánalegu hugmynd að eldsneytisverð yrði að eilífu lágt og hentugt gerði Mogensen illt verra með því að hefja langflug. Bein flug til Tel Aviv, San Francisco, Los Angeles og Nýja-Delí voru á dagskrá Wow Air á þessu ári. Kannski góð hugmynd á teikniborðinu og enginn í stjórn Wow Air var að fara að setja sig upp á móti hugmyndum forstjórans. Þeir sem það gerðu misstu vinnuna fimm mínútum síðar.
En kapp er best með forsjá og í tilfelli markaðsmanns ársins, Skúla Mogensen, tók ekkert rosalega langan tíma á netinu á sjá að langflugshugmyndir annars lággjaldaflugfélags, Norwegian, hafa mistekist hrapallega. Eða hversu margir hafa legið yfir slíkum hugmyndum hjá vinsælustu lággjaldaflugfélögum heims; easyJet og Ryanair, og komist að þeirri niðurstöðu að slíkt gangi aldrei upp. Annað dæmi er eitt vinsælasta lággjaldaflugfélag Bandaríkjanna, JetBlue, sem hefur aldrei dottið til hugar að fljúga yfir Atlantshafið.
Já-fólkið hjá Mogensen
Kannski allra versti gallinn við herra Mogensen er að kappinn safnaði kringum sig já-fólki. Fólki sem jánkaði bara við allar hans hugmyndir, klöppuðu fyrir snilld stjórans og fengu rjómatertu að launum. Þeir stjórnendur Wow Air sem fengið hafa reisupassann síðustu árin telja í tugum og yfirleitt fólk sem setti spurningarmerki við framtíðarsýn stjórans og eigandans.
Með öðrum orðum; viðskiptamaður ársins á Íslandi fór í fýlu ef einhver stjórnandi gerði athugasemdir við stjórn flugfélagsins. Með þeim afleiðingum sem við erum að byrja að sjá núna.
Framtíð Wow Air
Tvennt er í stöðunni fyrir viðskiptamann ársins. Annars vegar leggja Wow Air niður, því enginn vill fjárfesta í illa reknu flugfélagi eða taka öllu því sem stjórnarformaður bandaríska fjárfestingasjóðsins Indigo Partners býður og vill.
Mogensen er ekki í góðri stöðu. Forráðamenn Icelandair hættu við yfirtöku á Wow Air sökum þess að fyrirtækið stendur mjög illa, almennir fjárfestar kusu að fjárfesta ekki í flugfélaginu í hlutabréfaútboði í haust og nú lítur allt út fyrir að flugfélagið leggi beinlínis upp laupana ef bandarískur milljarðamæringur fær ekki öllu sínu fram.
Við hér veðjum á að Indigo Partners, sem eiga stóra hluti í allmörgum lággjaldaflugfélögum, eignist Wow Air á næstu dögum. Herra Mogensen fær að vera með að nafninu til í stjórn en hefur engin völd eða áhrif. Það aftur mun hafa í för með sér að mun fleirum verður sagt upp störfum því íslenskt starfsfólk er dýrt á alþjóðavísu. Wow Air mun lifa en aðeins sem skugginn af því sem var…







