Skip to main content

Þ að kemur vissulega mörgum afar spænskt fyrir sjónir en það er vel hægt að dúllast fáklædd á ströndu með kokteil í glasi, pakka saman einum golfhring eða svo og skíða niður þessar líku fínu brekkur á einum og sama deginum. Og það suður á Spáni af öllum stöðum.

Bláfjöll? Alparnir? Klettafjöll? Neibbs, bara Andalúsía á Spáni 🙂

Engar fréttir fyrir ferðaglaða að funheitur Spánn bjóði fyrirtaks skíðasvæði. Þau velflest í eða við landamæri Spánar og Andorra í Pýreneafjöllum og sum hver fimm stjörnu í þokkabót en auðvitað aðeins að vetrarlagi.

En það eru kannski fréttir fyrir skíða- og sólunnendur heimavið að það er líka allgott skíðasvæði mjög sunnarlega á Spáni. Nánar tiltekið í þjóðgarðinum Sierra Nevada alla leið suðureftir í Andalúsíu.

Jamm, þú last þetta rétt. Þú kemst í allgóðar skíðabrekkur í klukkustundar fjarlægð frá mörgum af þekktustu ströndum Costa del Sol!

Sierra Nevada er hár og mikill fjall- og þjóðgarður í Andalúsíu. Formlegt nafn er Parque Nacional de Sierra Nevada og það þarf töluverða færni í spænsku tungumáli til að leggja saman tvo og tvo. Það er nefninlega svo að nafnið segir allt sem segja þarf ef skilningur er fyrir hendi.

„Sierra” á spænsku er fjallgarður en mörgum fyrirgefst ef „Nevada” vefst fyrir fólki. Þetta er jú heiti á helsta sódómafylki Bandaríkjanna þar sem hitastig fer sjaldan niður fyrir fimmtán gráður. En „Nevada” kemur úr spænsku, og stendur bókstaflega fyrir snævi þakin fjöll.

Stór svæði þessa fjallgarðs standa það hátt að frá nóvember og fram í mars ár hvert er helstu tindar snævi þaktir sé allt eðlilegt. Og auðvitað hafa tækifærissinnar rutt vegi upp á toppinn, plantað hóteli, veitingastað og sett upp skíðalyftur 🙂 Nánar tiltekið í um hálftíma fjarlægð frá hinni skemmtilegu borg Granada.

Svæðið heitir Estacion de Sierra Nevada, telst til bæjarins Pradollano og er fullorðins skíðasvæði í öllu tilliti. Brekkurnar skipta tugum, vel yfir 20 skíðalyftur til að létta róðurinn og ekki þarf gönguskíðafólk að örvænta með yfir 40 kílómetra af gönguleiðum. Enginn skortur á bjór og tapas heldur.

Algjörlega príma stopp fyrir skíðaáhugafólk ef dvalið er í Andalúsíu að vetrarlagi og engin lygi að það er vel hægt að taka daginn snemma, skottast á skíði snemma að morgni og vera komin við sundlaugarbakkann með margarítu seinnipartinn 😉