D anir eru jú bara eins og þeir eru og sumir aðeins meiri Danir en hinir. Einn slíkur með eldheitan áhuga á Elvis Presley og peninga til að eyða hefur ekki látið nægja að dansa eftir lögum kóngsins eða kíkja á Graceland búgarð poppkóngsins í Memphis í Bandaríkjunum.
Nei, það dugði karli ekki og hann því reist eitt stykki nákvæma eftirlíkingu Graceland kóngsins á ólíklegasta stað í Danmörku.
Það kann að vera erfitt að trúa því að nákvæm eftirlíking íbúðarhúss Elvis finnist í því sem Danir sjálfir kalla sín á milli bölvað krummaskuð, í borginni Randers á Jótlandi í um 40 mínútna akstursfjarlægð frá Árósum. Það er staðreynd engu að síður en byggingin atarna er nákvæm eftirlíking íbúðarhússins í Memphis og stendur hugur til að í framtíðinni verði þar hægt að byggja allan búgarðinn frá a til ö.
Kofinn stendur þó fjarri því tómur því innifyrir má sjá fjölda muna um Elvis sem eigandinn og aðrir hafa gefið og í auðvitað þarf ekki að nefna að innandyra er allt eins skipulagt og væru menn að ganga inn í hinn alvöru búgarð vestanhafs. Það er aukabónus að hér eru danskar Elvis-eftirhermur að fræða gesti um húsið og líf kóngsins.
Auðvitað er ekkert slíkt hof án veitingastaðs þar sem feitir borgarar og annað hefðbundið fæði kóngsins fæst fyrir danskar krónur. Ekki heldur vantar verslun sem selur muni tengda Elvis og ekki síst búgarðinum í Randers og fær ekki illa um slíkan grip á hillum aðdáenda hérlendis.
Svo geta áhugasamir gengið í Graceland klúbbinn danska og aðstoðað við að byggja Graceland í heild sinni.
Aðgangseyrir aðeins rétt rúmar tvö þúsund krónur íslenskar og opið alla daga vikunnar milli 11 og 18. Nánar hér.