S íðastliðin ár hefur gripið hina íslensku þjóð og margar aðrar enn eitt æðið og að þessu sinni fyrir göngum hvers konar upp fjöll og firnindi. Nóg af slíkum möguleikum hérlendis en þó kannski engin sem endar með viðlíka útsýni og fæst af hinni norsku Tröllatungu.
Tröllatungan, Trollstunga, er líklega ásamt Prédikunarstólnum, Preikestolen, þekktasti og myndrænasti klettur Noregs og þangað leggja þúsundir leið sína hvern dag yfir sumartímann og litlu færri á veturna.
Ólíkt Prédikunarstólnum, sem er í 600 metra hæð á toppi fjalls í Lysefjorden og ekki svo ýkja langt frá borginni Stavanger eða Stafangri, er öllu flóknara að leggja leið sína að Tröllatungu. Sú finnst í Skeggjadalnum sem er einn af mörgum í Hardangri.
Tröllatunguna er líka erfiðara að ganga upp á og lengra því toppurinn er í 700 metra hæð yfir Ringedalsvatni og uppáferðin frá botni tekur þrjár til fjórar klukkustundir að lágmarki. Mæla leiðsögumenn með tíu í heildina. Hér er sem sagt um dagsferð að ræða gefi fólk sér stund eða tvær á toppnum.
En það er jafnframt ljóst að fegurðin hér er slík að slíkur túr verður lengi í minnum hafður.