Hópur vísindamanna vestur í Bandaríkjunum hefur farið fram á það við þarlenda lyfjastofnun að rannsakað verði í þaula hvort verið geti að sólarvörn geri beinlínis illt verra.

Alltaf koma fram meiri upplýsingar um að lítil vörn sé í sólarvörn.
Alltaf koma fram meiri upplýsingar um að lítil vörn sé í sólarvörn.

Hér er um grafalvarlegt mál að ræða því komið hefur í ljós við skemmri rannsóknir að ýmsar tegundir af vörum sem verja eiga fólk gegn skaðlegum geislum sólar gera ekkert annað en fela roða og dempa sársauka. Veita þannig falska öryggiskennd sem getur gert illt verra hjá sóldýrkendum.

Ástæða þessa er mikið magn andoxunar- og bólgueyðandi efna í mörgum þeim sólarvörum sem seldar eru þar í landi og víðar. Andoxunarefni kæfa eða koma í veg fyrir roða í húð tímabundið meðan bólgueyðandi skammturinn heldur niðri hugsanlegum sársauka vegna bruna.

Af því leiðir að þegar enginn er roði á líkama né sársauki heldur eru sterkar líkur til að fólk sé enn lengur undir sólinni en ella. Á meðan gæti þó húðin verið að steikjast og hugsanleg æxli að myndast. Enginn skyldi taka sortuæxli sem gríni. Tíu Íslendingar látast árlega vegna slíkra æxla en sortuæxli myndast nær eingöngu þegar húðin brennur undir steikjandi sólinni eða í tilfellum í sólarbekkjum.

Heita má furðulegt að þetta hafi ekki verið skoðað í kjölinn hingað til en eftir því sem Fararheill kemst næst hafa engar samsvarandi rannsóknir farið fram í Evrópu vegna þessa á vörum sem þar eru seldar og eiga að vernda fólk gegn skaðlegum geislum sólar.

Ágætt að hafa vaðið fyrir neðan sig í sólinni og eyða minni tíma en meiri í sólbaði jafnvel þó makað sé vel af sólarvörn á líkamann.