Skip to main content

A llmargir Frónbúar hafa áhyggjur af þeim mikla fjölda ferðamanna sem hér traðkar niður menjar og minjar. Vel rúm milljón manns þykir mörgum helst til mikið á ársgrundvelli og kannski með réttu. En setjið það í samhengi við þær 16 milljónir ferðalanga sem heimsækja eitt einasta fjall í Kína á hverju ári: Huangshan fjall.

Hluti af þrepunum 60 þúsund upp á tind hinna ódauðlegu í Anhui héraði í Kína. Fallið er hátt niður ef fótur skrikar.

Hluti af þrepunum 60 þúsund upp á tind hinna ódauðlegu í Anhui héraði í Kína. Fallið er hátt niður ef fótur skrikar.

Nafnið reyndar á við um heilan fjallgarð en í hugum Kínverja er Huangshan í raun aðeins eitt fjall og það merkilegt fyrir margra hluta sakir. Huangshan er þekkt sem fjall hinna ódauðlegu og á að hafa fengið þann stimpil eftir að keisari einn á sjöundu öld var sagður hafa farið þaðan til himnaríkis.

Hvort sem það stenst eður ei þótti lengi vel gríðarlegt verk að klifra á toppinn og vart mikið auðveldara eftir að einhverjum hugkvæmdist að smíða vel yfir 60 þúsund tröppur í bergið alla leið á toppinn. Lengi vel á eftir var talað um að allir þeir sem þann veg færu öðluðust ódauðleika en ekki hefur enn fengist staðfesting á því.

Huangshan er afar fallegt svæði og útsýni frá toppi Huangshan fjalls stórkostlegt. Ekki síður er það mikilfenglegt frá hæstu brú heims sem liggur milli tveggja kletta hátt uppi í fjallinu og kölluð er brú hinna ódauðlegu.

Reyndar þarf ekkert að þramma tröppurnar nú til dags fremur en fólk kýs því kláfur flytur nú ferðalanga langleiðina á toppinn þar sem finna má hefðbundar túristagildrur eins og minjagripaverslanir og veitingastaði.