Í Kolóradó í Bandaríkjunum er margt forvitnilegt að sjá og prófa en að öðrum stöðum ólöstuðum er það undantekningarlítið Mesa Verde þjóðgarðurinn sem fær allra hæstu einkunn ferðamanna til fylkisins. Þar gefur til dæmis að líta aldeilis mögnuð mannvirki.

Myndir gera hinum merku byggingum í Mesa Verde takmörkuð skil. Mynd Sean

Það tekur reyndar tímann sinn að aka alla leið frá Denver til Mesa Verde sem situr í suðvesturhorni fylkisins. Einar sjö klukkustundir á þægilegum hraða en fullyrt skal hér að það er þess virði. Í Mesa Verde, Græna borðið á spænsku, gefur nefninlega að líta einhverjar elstu og heillegustu hellabyggingar í Norður Ameríku allri og ekki færri en sex hundruð slíkar á litlum bletti. Þar er Cliff Palace fremst jafningja.

Ekki er um hellabyggingar að ræða í því tilliti að búið hafi verið í hellum heldur er hér um að ræða hús sem reist voru inni í risastórum hellum sem hér finnast víða. Það gaf góðan skugga fyrir heitri sólinni og var ekki síðri staður til að standast árásir óvina.

Hér eins og annars staðar var ein byggingin stærri og vandaðri en gekk og gerðist og telja fornleifafræðingar að þar hafi verið tilbeiðsluhús íbúanna sem teljast til Pueblo fólksins en afkomendur þeirra færðu sig suður með tímanum og nú búa stórir hópar þeirra í Arizona og Nýju-Mexíkó.

Aðgangseyrir að þjóðgarðinum kostar aðeins 1.800 krónur á mann og dugar í heila viku uni menn hag sínum það vel. Mælt er með að skrá sig í túr með leiðsögn því mikil saga liggur hér við hvert fótmál og hver bygging hefur sína sögu. Þó skal líka hafa í huga að aðgengi hér er ekki fyrir alla. Klifra þarf upp í sum húsin til að skoða að innan og ganga hér tekur talsvert á fótinn.