Skip to main content

Ý mislegt má segja um Þjóðverjann og sitt sýnist hverjum um hversu heillandi þeir eru. En þótt þeir margir séu þurrari en þurr Martini og á köflum beinlínis leiðinlegir á ferðalögum eru þeir afskapleg krútt heim að sækja.

Cannstatter í Stuttgart fer æði nálægt Októberfest í fjöri að okkar mati.

Cannstatter í Stuttgart fer æði nálægt Októberfest í fjöri að okkar mati.

Það má sannreyna hvað best á hátíðum þeim er Þjóðverjar halda af minnsta tilefni og vart finnst bær á kortinu sem ekki á sína eigin skemmtilegu eða forvitnilegu hátíð.

Það er þessi stemmari og gleði sem íslenskir bæir hafa undanfarin ár verið að tileinka sér með mismunandi hátíðum hér og þar. Ritstjórn Fararheill.is  mælir eindregið með þessum sex hátíðum Þýskalands:

♥ Munich Oktoberfest (september/október) – Þessa þarf varla að kynna enda þekktasta hátíð heims að Kjötkveðjuhátíðinni í Ríó fráskilinni. Panta þarf gistingu með árs fyrirvara og punga þarf duglega út peningum fyrir sæmilega gistingu á þeim tíma sem hún fer fram. Hátíðin snýst að öllu leyti um bjór og drykkju með nokkrum pylsum, jóðli og pilsum hent inn til skreytingar. Heimasíðan.

♥ Cannstatter Wasen (september / október) – Þessi rúmlega 160 ára gamla hátíð í Stuttgart fer fram gróflega á sama tíma og Oktoberfest í Bavaríu. Drykkja er þó þarna einnig í hávegum höfð en í stað bjórs eru það vín úr Stuttgart héraði sem þarna eru í forgrunni. Hún er þó meira en það því sett er upp heilmikið tívolí og ýmsar uppákomur sem gleðja heimamenn og aðra. Heimasíðan.

♥ Kieler Woche (Júní) – Hér á Fróni kannast margir við Kiel en þá fyrst og fremst gegnum þýska handboltann. Færri vita að í Kiel fer fram ein mesta veisla hvers árs í allri norður Evrópu í júní. Tíu daga stanslítið partí á götum borgarinnar og úrval viðburða og afþreyingar nánast fram úr hófi. Stærsti barnaleikvangur Þýskalands, keppt í yfir 30 íþróttagreinum þar á meðal heimsmeistarakeppni í siglingum, tívolí, skrúðgöngur og eðlilega áfengistjöld víða um bæ. Ekkert eitt þema stendur upp úr og dregur hátíðin til sín þrjár milljónir manna hverju sinni. Mikið ævintýri. Heimasíðan.

♥ Rhein in Flammen (maí / september) – Efist einhver um að eldur og vatn eigi ekki hreint ágætlega saman ætti sá hinn sami að koma sér fyrir á útsýnishæð við ánna Rín þegar Rín brennur hátíðin hefst. Flugeldum skotið á loft í hverjum bænum á fætur öðrum beggja vegna árinnar. Blys lýsa upp kastala og kirkjur og heill floti skipa á ánni eru skreytt á alla kanta. Bæjarbúar í smábæjunum glaðir og taka vel á móti aðkomumönnum og lífið er yndislegt. Heimasíðan.

♥ Love Parade (júlí / ágúst) – Flestir kannast við Love Parade sem lengi vel fór fram í Berlín og vakti heimsathygli í hvert sinn. Hátíðin er tileinkuð ástinni og er öllum opin en samkynhneigðir eru stór hluti þátttakenda í hvert skipti. Yngra fólk mun sennilega skemmta sér betur en þeir eldri og dansglaðir eru hér í himnaríki. Þó er óvíst hvenær þessi hátíð fer fram að nýju eftir harmleik á hátíðinni fyrir nokkrum árum. Ekki klikka á heimsókn þegar og ef hún hefst aftur einn góðan veðurdag. Heimasíðan.

♥ Frankfurt Buchmesse (október) – Bókahátíðin í Frankfurt er dýrðlegt stopp fyrir alla lestrarhesta og reyndar marga fleiri því þrátt fyrir nafnið er mun meira þar á seyði en kynningar á bókum. Þetta er stærsta og vinsælasta bókahátíð heims og það er ástæða fyrir því. Heimasíðan.