Vel rúm vika síðan Icelandair samþykkti að yfirtaka Wow Air og eðli máls samkvæmt hefur gengi bréfa þess fyrrnefnda hækkað sæmilega á þeim tíma. En við teljum þjóðráð fyrir hlutabréfaeigendur að losa sig við bréf sín eigi síðar en núna.
Ók, eitt stykki stöðutékk:
Innlendir fjölmiðlar ekki gert lítið úr því að gengi bréfa Icelandair hækkaði duglega síðustu dagana eins og sjá má hér, hér og hér. Nema hvað engir þeirra hafa tekið neitt sérstaklega fram að frá byrjun árs 2016 hafa hlutabréf í Icelandair fallið hraðar en dropi í Dynjanda. Sem merkir að þrátt fyrir bullandi uppsvíng eftir að Icelandair ákvað að taka yfir Wow Air, er gengi bréfa flugfélagsins samt í tómu tjóni í stóru myndinni.
Það sést glögglega á myndinni hér að ofan sem sýnir gengi bréfa Icelandair frá árinu 2007. Þrátt fyrir „risastökk” upp á við er gengi flugfélagsins nú nett á pari við það sem það var í byrjun árs 2013. Svona sirka í þann mund sem töluverður fjöldi erlendra ferðamanna til landsins varð að megafjölda ferðamanna.
Munu bréfin hækka meira en orðið er?
Hæpið að okkar mati og fyrir því ýmsar mismunandi ástæður.

Sitjandi forstjóri Icelandair. Við höfum feitar efasemdir um kappann…
Í fyrsta lagi liggur ekkert fyrir um hvort eða hvenær Samkeppniseftirlitið kveður upp úrskurð um hvort sameining Icelandair og Wow Air sé heimil.
Komist stofnunin að því að yfirtakan sé óheimil þarf Skúli Mogensen að kaupa vasaklút til að þerra tárin og forráðamenn Icelandair að henda tveggja til þriggja vikna vinnu fjölmargra lögfræðinga og atvinnumanna fyrir róða. Það er jú ekki eins og stórt teymi sérfræðinga vinni ekki hörðum höndum að því að sameina félögin og gera bæði arðbær fyrir eigendur sína þó enn bóli ekkert á jái og amen frá Samkeppniseftirlitinu.
Nú er alls ekki útilokað að Icelandair geti vel rekið sína eigin útgáfu af lággjaldaflugfélagi svona í og með. Það gera jú mörg stór flugfélög önnur. Gallinn hins vegar sá að ekki mörg þeirra flugfélaga skila neinum seðlum í hús. IAG, móðurfyrirtæki British Airways, Iberia, Iberia Express og Vueling, heldur að auki úti lággjaldaflugfélaginu LEVEL. Sem er réttnefni því það flugfélag er rétt að slefa í núllinu og skilar engum arði eða tekjum. IAG á líka tæplega fimm prósenta hlut í lággjaldaflugfélaginu Norwegian en þar líka er bullandi tap á fjárfestingunni.
Þó Icelandair og Wow Air sé ekki það sama og flugfélög IAG þá er skrambi langsótt að Icelandair geti, jafnvel með samþykki Samkeppniseftirlitsins, snúið taprekstri Wow Air við sísona. Wow Air var jú að breiða út vængina til fjarlægra staða á borð við Tel Aviv í Ísrael og Nýju-Delí á Indlandi. ENGU lággjaldaflugfélagi heims hefur enn tekist að sýna hagnað á lengri flugleiðum en fjórum til fimm klukkustundum.
Vesen á vesen ofan
Jafnvel þó spekingum Icelandair takist að snúa taprekstri Wow Air til hins betra eru allnokkrir brattir fossar á leiðinni upp á við. Til dæmis sú staðreynd að flugfélögin nota alls ólíkar vélar til rekstursins. Er ekki dálítið hæpið að flugvirkjar Icelandair fylli helming flugskýla sinna af varahlutum í nýlegar Airbus vélar þegar floti Icelandair samanstendur af eldgömlum Boeing. Það kostar feitan pening.
Forsvarsmenn Icelandair eru ekki aðeins að takast á við að innlima Wow Air í kerfið heldur og taka við afrísku flugfélagi á næstu misserum. Icelandair sótti um og fékk blessun ríkisstjórnar Grænhöfðaeyja að taka yfir þjóðarflugfélagið og það á að gerast um næstu áramót. Líkurnar á að Icelandair, að mestu í eigu lífeyrissjóða landsmanna, takist að gera TVÖ önnur flugfélög að peningamaskínum er vægast sagt hæpið. Þeim hefur ekki einu sinni tekist að gera innanlandsflug á Íslandi arðbært þrátt fyrir áratuga tilraunir og það með ríkisstyrk að auki.
Eitthvað Bogi við þetta

Wow Air veðjaði hundruðum milljóna á Indlandsflug en nú þegar er verið að fella niður ferðir þangað.
Ýmsir þarna úti hafa borið lof á settan forstjóra Icelandair, Boga Nils Bogason, og lofa karl í stert fyrir að breyta gengi Icelandair Group úr draslflokki í svona sæmilega rútuferð á Sauðárkrók. En þá gleymist að sami Bogi hefur setið í brúnni allan þann tíma sem gengi flugfélagsins hefur hrunið hraðar en Berlínarmúrinn 1989.
Sem fjármálastjóri hefur karlinn efalaust haft sitt að segja um reksturinn og jafnvel blindu fólki er ljóst að eitthvað verulega alvarlegt átti sér stað í herbúðum Icelandair síðustu árin. Eða hvernig annars er hægt að útskýra að félag sem átti ekki aðeins flugmarkaðinn með húð og hári árið 2012 plús tugi hótela og ferðaskrifstofa, tapaði peningum hraðar en Bernie Madoff á sama tíma og sprenging varð í fjölda ferðamanna til landsins? Engum blöðum um að fletta að einn daginn verður rekstur Icelandair á mesta annatíma í íslenskri ferðaþjónustu, kennt sem Viðskiptafeill 101 í Háskóla Íslands.
Og hvað svo ef Samkeppniseftirlitið segir nei og amen við öllu saman og ógildir kaupin? Þá er allur meðvindur fyrir bý og Wow Air leggur upp laupa.
Þá er gott að vera búin/-nn að selja bréfin atarna eins og við hér gerðum í morgun 😉







