Fimmtán sinnum hefur Fararheill.is gert skoðanakönnun meðal lesenda sinna og aldrei áður hefur svo yfirgnæfandi hluti þátttakenda verið að sama máli: Leifsstöð er okurbúlla.
Þetta er álit 417 af þeim 523 einstaklingum sem svöruðu spurningu um verðlag í Leifsstöð en svarmöguleikarnir voru A) okurbúlla, B) hægt að gera kjarakaup og C) ekkert til að hrópa húrra fyrir.
Fær Leifsstöð næstum rússneska kosningu en 74,9 prósent telja verðlag í Leifsstöð hreint okur. Einungis 3 prósent segja að hægt sé að gera kjarakaup í verslunum Leifsstöðvar og 22 prósent segja verðlagið ekkert til að hrópa húrra fyrir.
Þó vissulega sé ekki á neinn hátt um hávísindalega könnun að ræða er kristaltært að verslanir í Leifsstöð með sín tollalausu fríhafnarverð eru engan veginn að standa undir nafni.
Þess má geta af þessu tilefni að aldrei hafa forráðamenn Leifsstöðvar nokkru sinni leyft verðkönnun þar innandyra þó farið hafi verið fram á slíkt oftar en einu sinni hin síðari ár. Hafa jafnvel gegnum tíðina margir dregið í efa fullyrðingar um að verðlag sé betra í Leifsstöð en á Laugaveginum.
Þakkar Fararheill kærlega fyrir þátttökuna sem hefur aldrei verið meiri en nú. Búi einhver lesandi yfir verðupplýsingum úr Leifsstöð má sá hinn sami gjarnan koma því á framfæri við ritstjórn.







