Það er brunandi gangur hjá flugfélaginu Icelandair. Það hyggst kaupa tólf nýjar þotur af Boeing á næstu árum en fyrstu vélarnar verða teknar í notkun árið 2018 að því gefnu að áætlanir Boeing standist.

Boeing 737 MAX eins og þær sem Icelandair hefur ákveðið að festa kaup á. Þær taka færri farþega en eldri vélar en eru mun sparneytnari.
Um er að ræða nýjar vélar sem hlotið hafa nafnið 737 MAX en þær eru að flestu leyti byggðar á gömlum grunni hefðbundinna 737 véla Boeing. Utanfrá líta þær næsta eins út en stærsti munurinn felst í nýjum hreyflum og vélum sem munu spara umtalsvert meira eldsneyti en eldri vélar.
Fram kemur í tilkynningu frá Icelandair vegna málsins að átta hinna nýju véla muni taka 153 farþega og fjórar stærri allt að 172 farþega sem vekur athygli því núverandi vélar flugfélagsins taka 183 farþega. Færri og væntanlega betri sæti þýða á mannamáli að fargjöld verða dýrari sem því nemur.
Þó fjárfestingin sé mikil og fyrirtækið hugsi kannski of stórt miðað við að hafa aðeins séð til sólar eftir gríðarlega skuldsetningu á svokölluðum góðæristíma var þessu ekki frestað mikið lengur. Flugfloti félagsins er kominn vel til ára sinna og mikill kostnaður fylgir að halda gömlum vélum í góðu standi.
Samt hyggst flugfélagið halda áfram að reka eldri þotur sínar samhliða þeim nýju og af því má ráða að Icelandair telur að ferðamannafjöldi hingað til lands muni stóraukast frá því sem nú er og stemmir það við framtíðarsýn ferðaþjónustuaðila.
Á hinn bóginn er ár og dagur og vel það síðan áætlanir Boeing stóðust síðast og því engan veginn víst að þotur sem eiga að skila sér árið 2018 geri það á þeim tíma.






