Skip to main content

Ímyndum okkur eitt augnablik hann Guðstein frænda úr Skagafirði. Hann græðir vel á hlut sínum í Kaupfélagi Skagfirðinga og berst mikið á. Hann mætir hvergi, hvort sem er í skírnarveislu eða jólapartí, án þess að grobba sig af góðverkum.

Miklir peningar í auglýsingar sem hefðu getað efalítið getað nýst betur. Skjáskot

Miklir peningar í auglýsingar sem hefðu getað efalítið getað nýst betur. Skjáskot

Hann gaf Rauða Krossinum milljón krónur og Barnahjálp ABC hálfa milljón króna. Hann keypti heyrnartæki handa fjórtán ókunnum einstaklingum og leiddi gamla konu yfir götu. Tvisvar. Og setti það umsvifalaust í status á fésbókarvef sinn í bæði skiptin.

Flest eðlilegt fólk, jafnvel það sem elskar karlangann, fengi líkast til fljótt upp í kok af endalausum montsögum og sennilega myndi fljótt fækka boðskortunum í veislurnar. Það eru nefninlega ekki svo margir sem njóta þess að aðrir einstaklingar gorti af góðverkum sínum.

Annað virðist gilda um fyrirtæki. Flugfélagið Icelandair keypti nýverið heilsíðuauglýsingar í hinum og þessum fjölmiðlum til að benda á að fyrirtækið hefði nú boðið ákveðnum fjölda langveikra barna í draumaferð til útlanda. Framtakið kallast vildarbörn og er sannarlega flott framtak, gott og þarft og að nokkru leyti að þakka farþegum flugfélagsins. Engin spurning að fjöldi barna og foreldra hafa þar fengið draum uppfylltan.

En hvers vegna að monta sig af þessu í hvert skipti og það árum saman? Það með flennistórum opnuauglýsingum í helstu fjölmiðlum landsins. Opnusíður í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu kosta vart undir einni milljón króna samtals.

Var svo vitlaust að sleppa opinbera montinu og bjóða kannski bara einni fjölskyldu í viðbót með í förina? Eða tveimur eða þremur? Fyrir utan auðvitað að hvergi í mannheimum fær fólk eða fyrirtæki plús í kladda fyrir að aðstoða þá sem minna mega sín og monta sig af því í hvert skipti…