Með forsjálni að vopni er þessi dægrin hægt að komast frá Íslandi til Japan, Kína, Tælands, Kambódíu og jafnvel Ástralíu líka undir eitt hundrað þúsund krónum fram og aftur. En að skjótast fram og aftur til grænlenska bæjarins Ilulissat með Flugfélagi Íslands kostar að LÁGMARKI tæpar 150 þúsund krónur.

Hingað kemst enginn nema fuglinn fljúgandi í sumar nema eiga að lágmarki 150 kall í veski.
Lausleg úttekt Fararheill á fargjöldum Flugfélags Íslands fram og aftur milli Reykjavíkur og hins fallega Ilulissat á Grænlandi sýnir að þangað er ekki komist nema punga út 146.006 krónum að lágmarki. Gildir þá einu hvort flogið er í júní, júlí eða ágúst.
Nú er Fararheill ekki á lista Icelandair, móðurfyrirtækis Flugfélags Íslands, yfir vinveitta fjölmiðla og þeir svara engum spurningum frá okkur. Okkur langaði nefninlega að forvitnast hvernig standi á því að sjö stunda flug FÍ til Ilulissat og heim aftur kosti lágmark tæpar 150 þúsund meðan fimm stunda flug FÍ til Aberdeen í Skotlandi fæst niður í 35 þúsund kallinn fram og aftur? Það ekki nema 317 prósenta verðmunur á þessum flugferðum með sama flugfélagi í sams konar vélum með sama starfsfólk…
Getur þetta verið eitthvað annað en græðgi? Lendingargjöld í Ilulissat kannski með þeim hæstu í veröldinni? Grænlandsflugmenn FÍ betur borgaðir en hinir? Einokun?
Spyr sá sem ekki veit.







