Afar vel hefur tekist til hjá Wow Air að halda öllum kostnaði í lágmarki að sögn forstjórans. Rekstrarkostnaður Wow Air er áætlaður töluvert lægri en til dæmis hins breska easyJet.

Rekstrarkostnaður Wow Air mun lægri en helstu keppinauta en fargjöld töluvert hærri. Mynd Wow Air
Þetta kemur fram í viðtali túrista.is við forstjóra Wow Air þennan daginn en þar er Skúli Mogensen, forstjóri Wow Air, borubrattur og óttast hvorki mikinn vöxt easyJet né önnur flugfélög sem fljúga til og frá Íslandi. Það segir sig sjálft. Hvaða forstjóri myndi opinberlega lýsa yfir áhyggjum af samkeppni?
En ein stór spurning situr eftir. Ef rekstrarkostnaður Wow Air er svo mikið lægri en hjá vel reknum erlendum stórfyrirtækjum, hvernig stendur á því að fargjöld Wow Air eru þó yfirleitt hærri og stundum verulega hærri? Fargjöld flugfélagsins eru stundum hærri en hjá Icelandair sem flokkar sig ekki sem lággjaldaflugfélag.
Kannski er nauðsynlegt að meira sitji eftir til að styrkja grunn nýs flugfélags gagnvart gömlum hundum í bransanum? Þessir stóru njóta jú betri kjara við alla samninga og hagstæðari lánakjara í lánastofnunum. Svo er líka gott að eiga fjármagn til að mæta óvæntum útgjöldum.
Kannski ráða aðrar ástæður en hvernig sem málið er skoðað er undarlegt að láta viðskiptavini ekki njóta þess þegar tekst að halda kostnaði niðri.
En það er bara okkar skoðun.






