M erkilegt má heita á því herrans ári 2023 að til séu þeir staðir þar sem svo er litið niður á ýmsa þjóðfélagshópa að þeim er bannaður aðgangur. Merkilegra þó að staðir sem slíkt banna finnast í lýðræðisríkjum á borð við Þýskaland, Grikkland og Japan svo nokkrir séu nefndir. Allra merkilegast að sá þjóðfélagshópur sem bannið nær til og við erum að vísa til hér eru konur.

Einn fegursti fjallgarður Grikklands en konum er bannaður aðgangur.

Flestir vita að konum er meinað að gera allan fjandann í ýmsum löndum heims og þá gjarnan í gegnsýrðum múslimalöndum á borð við Sádí-Arabíu.

Boð og bönn á kvenkynið er þó engan veginn einskorðað við það fasistaríki heldur finnast víða staðir sem konum er ekki heimilt að koma nálægt.

Nokkrir slíkir staðir finnast í vestrænum lýðræðisríkjum sem kemur enn undarlegar fyrir sjónir en ella. Það hefur þó ekki komið í veg fyrir að Sameinuðu þjóðirnar undir merkjum Heimsminjaskrár gefi hinum og þessum stöðunum arfleifðarstimpil.

Tökum til að mynda Athos skaga í Grikklandi en á honum stendur hið helga Athos fjall. Blátt bann er við kvenfólki á skaganum öllum sem er undir sérstakri sjálfsstjórn yfir 20 trúarfélaga. Kvenfólki er ekki heimilt að stíga þar niður fæti jafnvel þó staðurinn sé á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna sem arfur mannkyns!!!

Svo virðist sem starfsfólki fyrrnefndrar heimsminjaskrár sé nokk sama hvort konur heims eru velkomnar á þá staði sem teljast vera arfur mannkyns. Annað fjall sem finnst í þeirri skrá er Omine fjall í Japan. Efst á því er aldagamalt og virt búddamusteri og viti menn, konum meinaður aðgangur. Ástæðan ku víst vera að þær hafa truflandi áhrif á þá karlmenn sem þangað koma til að leita sér innri friðar. Ef harðkjarna Búddistar ráða ekki við tittlinginn á sér er lítil von fyrir aðra karlmenn ekki satt?

Víða í ríkjum Asíu, Mið-Austurlanda, Afríku og Suður Ameríku er konum meinaður aðgangur að hinu og þessu og oftar en ekki vegna einhverrar trúarþvælu sem fornir áhrifaplebbar sögðu sannleik og nógu margir keyptu til að gera það að sannleik nútímans.

Þannig er konum stranglega bannaður aðgangur að hofum og musterum hindúa í Indónesíu og víða í Indlandi og Sri Lanka. Konur hafa heldur ekki aðgang að ýkja mörgum heilögum stöðum í Malasíu en það er hátíð ein miðað við blátt bann við konum í Sádí-Arabíu. Bann í þeirri merkingu að konur fá yfirleitt ekki einu sinni vegabréfsáritun inn í það skítuga land. Jafnvel þær fáu sem inn komast mega ekki bregða sér á klósett eða hvað þá lengra án karlmanns með í fylgd.