L ögmál heimsins mýmörg en eitt það merkasta er að pizzur á Ítalíu bragðast sirka sex þúsundfalt betur en bestu pizzurnar hér heimavið. Sama prinsipp í New York í Bandaríkjunum. Þar eru pizzurnar í Brooklyn sex þúsundfalt betri en annars staðar í borginni.
Það á ekki að koma neinum vitiborinni manneskju á óvart. Það er jú í Brooklyn þar sem hundruð þúsunda ítalskra innflytjenda settust að á sínum tíma fyrir tæpum hundrað árum. Þó ekki sé Brooklyn lengur athvarf Ítalana eingöngu þá er hvergi annars staðar að finna jafn góðar pizzur. Ekki einu sinni í Litlu-Ítalíu á Manhattan.
Sem vitiborinn lesandi viltu að sjálfsögðu sannanir um slíkar yfirlýsingar. Það gott og blessað og eðlilegt líka.
Fyrsta ástæðan gæti verið sú að innfæddir í New York mæla langflestir sjálfir með túr til Brooklyn ef góð pizza er á dagskránni. Prófaðu að djamma í borginni eitt laugardagskvöld fram eftir nótt og þegar þarf að fæða mannskapinn í næsta partíi eru undantekningarlaust pantaðar pizzur frá Brooklyn.
Önnur ástæða gæti verið sú að í Brooklyn finnast yfir tvö þúsund pizzastaðir. Berðu það saman við Manhattaneyju en þar finnast „aðeins” tvö hundruð veitingastaðir sem sérhæfa sig í pizzum.
Þriðja ástæðan gæti vel verið sú að pizzastaðir í Brooklyn hafa undantekningarlaust unnið velflest verðlaun hjá fagtímaritum linnulítið um tuttugu ára skeið.
Ekki taka okkar orð fyrir. Gúgglaðu málið 🙂