Þó fyrr hefði verið! Alþjóðasamband flugfélaga, IATA, hefur loks samþykkt að leggja ofuráherslu á að koma á rafrænu kerfi til að fylgjast með farangri þeirra billjóna sem ferðast flugleiðis árlega. Slíkt kerfi skal vera komið í gagnið innan eins árs.

Gangi allt eftir verður hægt að fylgjast með farangri sínum á flugvöllum með appi í símanum.
Þetta hefur verið hausverkur bæði flugfélaga og farþega þeirra í fleiri áratugi. Þrátt fyrir nútímalega flugvelli, súper-dúper farangurskerfi og góðan vilja þá týnast hvorki fleiri né færri en 21 MILLJÓN töskur á hverju einasta ári samkvæmt tölum IATA.
Það hljómar nú algjört smotterí þegar farþegafjöldi í flugi á hverju ári skjagar í fjórar billjónir á heimsvísu.
En það er ekkert smotterí fyrir flugfélögin og sannarlega ekki þá farþega sem fyrir verða. Fyrir flugfélögin skapar þetta ótrúlega vesen að hafa upp á töskum sem ekki hafa skilað sér. Það bæði mannfrekt og kostnaðarsamt plús það að flugfélögum ber að endurgreiða fólki helstu nauðsynjar á ferðalagi ef taska finnst ekki fljótt og örugglega. Jafnvel þó töskur finnist fljótt þá á samt eftir að koma þeim til eigenda sinna sem gætu verið á bíltúr um Evrópu eða í fljótasiglingu í Asíu eða gista í fjallakofa á Mýrdalssandi. Það kostar duglega að hafa uppi á fólki sem og koma farangrinum til þeirra.
Varla þarf að fjölyrða um farþegana sjálfa. Flug er orðið bæði þreytt og stressandi með öllum þessum öryggisráðstöfunum, töfum, niðurfellingum og guð-má-vita-hvað. Það eykur stressið til muna ef farangur manns kemur ekki með fólki á áfangastaðinn. Þeir kvarta og kveina auðvitað og oft á samfélagsmiðlum og margir lenda líka í veseni með að fá greiddar lögboðnar bætur ef töskur týnast lengi eða finnast aldrei.
Nú skal tækla vandamálið á heimsvísu. IATA hyggst láta framleiða rafræn töskumerki sem senda frá sér merki í hvert sinn sem farangur er skannaður. Merkin eiga að berast flugfélaginu sjálfu svo það viti hvar mál standa en ekki síður eiga farþegar að geta séð hvar töskudruslan er niðurkomin í ferlinu og ekki síður hvort hún fór með á áfangastað.
Þessi tækni er ekki beint ný af nálinni. Air France hefur prófað sig áfram með slík töskumerki um fjögurra ára skeið og bandaríska flugfélagið Delta hefur um hálfs árs skeið brúkað slík merki á helmingi þeirra flugvalla sem flugfélagið notar vestanhafs. Mikill kostnaður hefur hins vegar valdið því að eitt og eitt flugfélag veigrar sér við að setja upp slíkt kerfi en nú horfir málið öðruvísi við þegar alþjóðasamtökin ætla að taka á málinu.
Vonandi munu týndar töskur því að mestu heyra sögunni til að þremur til fjórum árum liðnum 🙂







