Hún er furðuleg þessi þjóð. Fregnir um nýjan megrunarkúr, fimmtán ára kærustu rúmlega fimmtugs lögmanns hvers eftirnafn byrjar á Sveinsson, trilluveiðar við Langanes og stórkostlegur árangur leikjafyrirtækis fá auðveldlega mörg þúsund læk á hinni einu sönnu samfélagssíðu Íslendinga.
En þegar fregnir snúast um fyrirtæki sem svína á fólki aftur og aftur og ítrekað fæst varla læk og hvað þá að efninu sé deilt. Nei, flottar ungar kærustur þekkts lögmanns er ívið skemmtilegra efni en að deila einhverju sem raunverulega snertir fólkið í landinu. Svo er þorri almennings hissa að fólk eins og Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson komist í valdastóla og ríði húsum?
Þegar þetta er skrifað hafa 29 þúsund lesið grein okkar frá því fyrr í dag um að flugfélagið Primera Air hafi fengið rassskellingu fyrir hæstarétti Danmerkur. Af þessum 29 þúsundum hafa fimm sett læk og enginn deilt efninu. Engum finnst það þess virði að benda vinum og vandamönnum á að næstum íslenskt fyrirtæki sem löngum hefur fengið bágt fyrir slælega þjónustu hafi nú loks fengið stól fyrir dyr og geti ALDREI eftirleiðis komið sér hjá bótagreiðslum til farþega ef vél þeirra bilar.
Einsdæmi? Ekki aldeilis. 52 þúsund hafa skoðað niðurstöður vefkönnunar Fararheill um hver sé besta ferðaskrifstofa á Íslandi. Af þessum 52 þúsundum hafa 4.678 greitt atkvæði. Hvers vegna að kíkja á könnun á ferðavef til þess eins að taka EKKI þátt?
Grein okkar frá því í gær um að Wow Air í tilfellum fari fram á að ungabörn greiði hærri upphæðir fyrir flug en fullorðið fólk vakti athygli tæplega fjögur þúsund aðila. Engin læk og engar deilingar. Þykir fólki kannski bara eðlilegt að tveggja ára börn greiði hærri fargjöld en fullorðnir?
Dýravinir eru nokkrir á Íslandi. En deilingar á grein okkar þess efnis að íslenskt flugfélag pakkaði chihuahua hundi svo langt inn í farangursgeymslu að það tók margar klukkustundir að finna dýrið eftir lendingu fékk alls engar undirtektir. Best að láta hörmulega meðferð á dýrum liggja milli hluta.
Miðað við læk og deilingar á grein okkar þess efnis að það þurfi sérstaklega að leita að lægstu fargjöldum Icelandair finnst öllum það eðlilegt. Kannski er lægsta verð á flugi ekkert sem kemur Íslendingum við. Við erum jú öll í svo skrambi góðum málum og lægsta verð á flugi er bara fyrir einhverja nískuplebba.
Við sköpum einungis betra samfélag með því að standa vörð um hvort annað gagnvart yfirstjórninni og eða fyrirtækjum sem um áratugaskeið hafa gert okkur að féþúfu og brosað í bankanum.
Eigum við ekki að fara að vakna aðeins. Er það svo vitlaus hugmynd?








