Tíðindi

Íhugar lögsókn vegna ferðamannaskorts

  27/08/2012No Comments

Líklega er bæjarstjórinn í strandbænum Knokke í Belgíu skotspónn einhverra brandara þessi dægrin í heimalandinu. Sá lét hafa eftir sér, af fullri alvöru, að lögsækja belgísku veðurstofuna fyrir að spá leiðinlegu veðri við strönd Belgíu í sumar. Það hafi haft grafalvarleg neikvæð áhrif á ferðamannastrauminn til bæjarins.

Það er veðurstofunni að kenna að fáir ferðamen létu sjá sig í strandbænum Knokke í Belgíu. Bæjarstjórinn íhugar lögsókn

Knokke er einn af þeim bæjum í Belgíu sem gera nánast eingöngu út á ferðamennsku yfir sumartímann eins og margir aðrir bæir við belgísku ströndina og á stundum kallaður Benídorm Belgíu.

Og Belgar eins og aðrir í heiminum elta sól og sælu þegar njóta á lífsins í sumarfríinu eða helgi og helgi og hafa látið sig vanta í Knokke þessa sumarvertíðina. Annarra þjóða kvikindi hafa heldur ekki séð ástæðu til að dvelja mikið í Knokke í sumar.

Þetta segir bæjarstjórinn vera veðurstofu landsins að kenna. Langtímaspá hennar fyrir sumarið hafi verið slæm og það sé megin ástæða þess að fáir létu sjá sig í Knokke. Það kalli hugsanlega á skaðabætur að mati bæjarstjórans.