
Hættum viðskiptum við svona viðbjóðsfyrirtæki. Skjáskot
Hvaða viti borin manneskja er enn að skoða flugferðir fyrirtækis með svo viðbjóðslegum einstaklingum í forsvari?
Ók, ekki misskilja okkur. Ef Icelandair væri raunverulega á fljúgandi ferð rekstrarlega og hefði ekki verið áskrifandi að skattpeningum Jóns og Gunnu um 30 mánaða skeið eða svo væri hægt að fallast á að stjórarnir fengju 30 þúsund króna inneign í Bónus sem verðlaun. Það er jú enginn að lifa af 5 milljónum króna á mánuði eins og forstjórinn. Það rétt slefar í fyrstu útborgun á lélegri flösku af rauðvíni.
En þessir kappar, hvers stjórn og yfirstjórn nýtur margfaldra launa meðalmannsins þrátt fyrir að hafa nánast kafsiglt þessu fornfræga flugfélagi á mesta annatíma íslenskrar ferðaþjónustu í þokkabót við að fá tugmilljarða króna eftirgjöf frá ríkinu, vilja meira. Mikið meira!
Vitnum aðeins í RÚV:
Stjórn Icelandair leggur til að aðalfundur samþykki að helstu stjórnendur fyrirtækisins geti fengið allt að 25 prósenta bónus ofan á launin sín og að auki kauprétt að hlutabréfum sem í dag eru metin á um tvo milljarða króna. Stjórnin segir kaupaukaréttinn hvatningu fyrir stjórnendur til að standa sig framúrskarandi vel og draga úr hættu á að þeir hætti með skömmum fyrirvara.
Tuttugu og fimm prósenta bónus ofan á súperlaun fólks sem hefur ekki vitað hvað er upp né niður í flugheimum síðan Wright-bræður uppgötvuðu flughæfileika mannkyns, er vel í lagt hjá því sem er ríkisfyrirtæki að öllu nema að nafninu til.
Icelandair hefur tapað 80 MILLJÖRÐUM KRÓNA á síðustu fjórum árum. Hlutabréf fyrirtækisins hafa hrapað um 94 prósent frá toppnum árið 2016. Meðalaldur flota fyrirtækisins er tæplega 18 ár þrátt fyrir nokkrar nýjar Boeing-Max rellur að undanförnu. Icelandair náði aðeins EINU SINNI að sýna hagnað á starfseminni á mesta ferðamannatímabili í Íslandssögunni 2012 til 2019. Stjórnendur eyddu hundruðum milljóna til að kaupa sín eigin bréf á því tímabili til að hækka hlutabréfaverðið og sátu svo uppi á nærbuxunum um leið og niðursveifla hófst í fluggeiranum.
Og svo framvegis og svo framvegis.
Í guðanna bænum hættið viðskiptum við Icelandair ekki síðar en í gær. Við eigum betra skilið.
Óhrædd við að nota nífaldan heimsmeistara í hótelbókunum samkvæmt World Travel Awards hér að neðan. Það er eina tekjuleið okkur hér 😉