Skip to main content

B láa lón okkar Íslendinga er blátt meira og minna allt árið. Hvíta lónið nálægt borginni Cuenca á Spáni er hins vegar aðeins hvítt í einn mánuð hvert ár.

Ellefu mánuði ársins er hið fallega La Gitana lón svona á litinn.

Aldeilis sérstakt náttúrufyrirbrigði á sér stað í Gitana-lóninu á Spáni hvert ár en það er eitt allmargra lóna og vatna sem finnast á svæði sem kallast Cañada de Hoyo skammt frá borginni Cuenca og þykir meðal merkustu náttúrulegu staða í landinu.

Það helgast af fjölda vatna og lóna á tiltölulega litlu svæði sem er eitt fárra á Spáni þar sem jarðvegurinn er að mestu úr kalksteini.

Viti borið fólk veit sem er að kalksteinn gefur auðveldlega eftir þegar á hann rignir og nægilega mikil rigning getur skapað algjöran undraheim hella og skúta undir yfirborðinu með tíð og tíma. Þetta fyrirbrigði þekkist mætavel í Mexíkó þar sem varla finnst vatnspollur án þess að undir niðri séu þvílíkir unaðsheimar að engu tali tekur.

Öll lón er sjón að sjá en skjannahvít lón finnast ekki víða.

Lónin í Cuenca-héraði eru ekki á pari við lón Mexíkó enn sem komið er. Sum lóna Mexíkó eru 300 metra djúp og teygja anga sína fleiri kílómetra hingað og þangað undir yfirborðinu. Þau spænsku ná mest 40 metra dýpi þegar þetta er skrifað og teygja sig lítið sem ekkert.

En það þarf kannski ekki kafarabóluna til að njóta La Gitana. Það nægir líklega aðeins fulla sjón og vera laus við litblindu. Það mínus sökum þess að einn mánuð á ári tekur lónið algjörum stakkaskiptum; breytist úr fallegu hefðbundnu vatni í mjallhvítt lón eins og sjá má á meðfylgjandi mynd frá ferðamálaráði svæðisins.

Þetta gerist sökum hita sem nær á tímabili óvenju djúpt niður í vatnið og vekur til lífs þörunga og lífverur sem gefa frá sér hvítan lit þegar þær vakna tímabundið úr dvala.

Ekki er heimilt að synda mikið í lónunum hér en köfun er heimil með leyfi. Svo er enginn að tékka heldur ef stöku aðilar steypa sér til sunds. Hafðu bara hugfast að vatnið er æði kalt 😉

PS: Borgin Cuenca er sannarlega heimsóknar virði. Frá Madríd er hingað komist á einni og hálfri klukkustund eða svo.