N æsti bær frá höfuðborg Madeira, Funchal, til vesturs er Camara de Lobos. Sá er þekktur fyrir tvennt: fiskveiðar og Winston Churchill.
Bærinn sjálfur stendur eins og aðrir bæir á Madeira á fallegum stað en hér er margt komið til ára sinna og helst til lúið að labba hér um.
Ljósi punkturinn er ágæt höfnin sem er tiltölulega lokuð af sem gerir hana sérdeilis góða fyrir annars galopnu hafinu hér. Hér má raunverulega sjá fiskimenn að störfum en þó ekki daglega því aðeins er gert út óreglulega því langt þarf að fara. Helsta afurð veiðimanna hér er fiskur sem heimamenn kalla Pota og er allsérstakur risasmokkfiskur sem finnst í hafinu hér í kring.
Hvað Winston Churchill kemur þessum bæ við tengist því að hér eyddi karlinn töluverðum tíma þegar afslöppun var á dagskránni á eldri árum. Kappinn lagðist meira að segja í myndlist hér og þekktasti staðurinn í Camara de Lobos eru litlar svalir með útsýni yfir höfnina en þar sat Churchill dögum saman og málaði það sem fyrir augu bar.
Nafn bæjarins vekur athygli. Gróflega þýtt merkir það úlfagreni sem er illskiljanlegt því hér finnast engir úlfar. Það kemur þó í ljós að hér voru sannarlega úlfar á öldum áður en stofninn allur veiddur fyrir margt löngu.