Skip to main content

Reglulega fær fólk á leið á sólarstrendur þær ráðleggingar að allra vænlegast sé að kaupa sólarvörur, hvers konar, hér heima á Fróni enda kosti slíkt morð fjár víðast hvar í heitu löndunum. Þetta er helbert kjaftæði.

Einn steiktur gaur á Spáni.

Einn steiktur gaur á Spáni.

Á vef Fríhafnarinnar, þar sem gera má ráð fyrir að finnist ódýrustu vörurnar í þessum flokki hérlendis, kosta sólkrem, olíur og kælikrem þetta frá 2.100 krónum og allt upp í sex til sjö þúsund krónur per brúsa eða túbu.

Án þess að Fararheill hafi gert ítarlega könnun í lyfjaverslunum er líklega óhætt að skjóta á að verð í þeim verslunum á þessum vörum sé að lágmarki 20-40 prósent hærra en Fríhöfnin býður og líklega almennt hærra en það.

Ritstjórn keypti fyrir skemmstu 400 ml. sólarvörn af þekktri tegund í þremur mismunandi verslunum í Valensíu á Spáni. Í Mercadona fékkst slík dolla á 4 evrur, í El Corte Ingles kostaði sama vara tólf evrur og í Opencor, sem er 10/11 þeirra Spánverja en verð þó töluvert eðlilegri, fékkst sama tegund á 14 evrur. Stutt leit á vef El Corte Inglés leiðir í ljós að sólarvörur ýmsar kosta milli tvo og þrjú þúsund krónur. Sú verslun er almennt sú dýrasta á Spáni.

Það þarf því ekkert að eyða tíma hérlendis að versla sig upp af sólarvörn eða vörum. Undantekningarlítið fást þær á lægra verði úti. Hvers vegna í ósköpunum ættu sólarvörur að vera einasta varan í veröldinni sem fæst á lægra verði hér en víðast erlendis?

Það sem væntanlega hefur komið þessum boðskap á framfæri upphaflega er sú staðreynd að sólarvörur kosta morð fjár ef þú kaupir þær í smáverslunum við ströndina. Gildir þá nánast einu um hvaða strönd er að ræða. Þá rýkur verð hraðar upp en óvinsældir Framsóknarflokksins. En það gildir um allar vörur í þeim búllum og ekki aðeins sólkrem og olíur.

UPPFÆRSLA: Skoðun í verslun El Corte Inglés í Alicante í lok apríl 2018 leiddi í ljós að sólarkrem og olíur frá þekktum framleiðendum kosta milli 15 og 45 evrur. Algengt verð um 30 evrur sem jafngildir 3.900 krónum eða nokkuð undir því verði sem gera má ráð fyrir að finna megi í fríhöfninni í Keflavík.

Annar stór mínus við að kaupa sólarvörn hér heima er að í hefðbundnum verslunum færðu aðeins Nivea. Þær vörur, eins og Fararheill hefur ítrekað greint frá, fá falleinkunn dauðans í vísindalegum prófunum. Hjá apótekunum fást nokkrar vænlegri vörur en Nivea en þá er gallinn sá að þú ert oftar en ekki að eiga viðskipti við skítaplebba. Karl Wernersson, stórglæpamaður og skíthæll með meiru, brosir í kampinn í hvert sinn sem þú kaupir drasl hjá Apótekaranum eða Lyfjum og heilsu. Þá getur hann hækkað launin sín og keypt sér dýrara rauðvín við sundlaugina sína á sveitasetrinu í Toskana.

Nei og aftur Nei! Beinum verslun erlendis, spörum stórar upphæðir og komum í veg fyrir að setja enn meiri peninga undir rassinn á fólki sem búið er að svíkja okkur og pretta um áraraðir