Hafi það farið framhjá einhverjum þá eru bæði íslensku flugfélögin, Wow Air og Icelandair, í samkeppni á flugleiðinni til Toronto í Kanada á næsta ári. Miðað við úttekt Fararheill fæst ekki séð að aukin samkeppni lækki nokkurn skapaðan hlut.

Æði dýrt flugið til Toronto þrátt fyrir aukna samkeppni næsta sumarið.
Við kíktum á hvað flugfélögin eru að bjóða okkur í maí, júní og júlí 2016 en í maímánuði hefst flug Wow Air til borgarinnar sem Icelandair hefur sinnt um hríð. Nú hafa bæði flugfélög kynnt sig vel og rækilega í Toronto og það hefur skilað ágætum árangri því þó fjandi langt sé til næsta sumars eru fargjöld beggja töluvert dýr eins og sést á meðfylgjandi töflu.
Áður en þú skoðar hana er vert að hafa í huga að lægstu flugfargjöld Icelandair svona gegnum tíðina fram og aftur til kanadísku borgarinnar hafa rokkað milli 55 og 80 þúsund krónur á haus. Miðað við nýjustu tölur hefur Wow Air ekki haft nein áhrif til lækkunar.
* Úttekt gerð kl. 23.00 þann 12. nóvember 2015. Leitað að lægsta fargjaldi fram og aftur í hverjum mánuði fyrir sig. Hafa skal í huga að enginn farangur fylgir flugi Wow en tvær 23 kílóa töskur fylgja með Icelandair. Ætli fólk að taka tvær töskur með hjá Wow Air bætast 19.996 krónur ofan á fargjaldið.







