Skip to main content

H art er deilt um titilinn sólríkasti staður Evrópu. Leit á Google leiðir í ljós að fjöldi staða gerir tilkall til tignarinnar en þeir eiga það sameiginlegt að liggja flestir við Miðjarðarhafið.

Þessi blettur á jarðkringlunni nýtur meira sólskins en aðrir evrópskir staðir. Mynd geo_M

Þessi blettur á jarðkringlunni nýtur meira sólskins en aðrir evrópskir staðir. Mynd geo_M

Kýpur og Malta eru áberandi meðal þeirra sem tilkall gera. Sama gildir um nokkrar eyjar Grikklands og nokkra bæi á suðurströnd Tyrklands. Þá vilja heimamenn í Faro í Portúgal eigna sér heiðurinn og hafa nokkuð til síns máls því þar mældust flestar sólarstundir árin 2017, 2018 og 2019.

Veðurfræðingar hafa þó mest vit á málinu frá fræðilegu sjónarmiði og sá staður í Evrópu sem mælist með flestar sólarstundir yfir margra ára tímabil kemur mörgum á óvart. Það reynist vera króatíska eyjan Hvar.

Nema hvað Hvar er ekkert mikið að ota sínum tota. Lítið finnst um eyjuna á leitarvélum og í ferðahandbókum lítið meira. Merkilegt nokk vilja íbúar í eynni líka hafa það þannig. Þeir vita sem er að leitun er að friðsælli en jafnframt fyrsta flokks ferðamannastað og þeir vilja, ólíkt sumum á Íslandi til dæmis, halda sínu nákvæmlega eins og það er.

Til Hvar er aðeins komist sjóleiðis en reglulegar ferjur ganga frá Split og Drvenik alla daga. Þá ganga einnig ferjur frá Pescara á Ítalíu hingað yfir hásumarið enda hafa Ítalir vitað af Hvar lengi og einnig haldið því fyrir sjálfa sig.

Höfuðstaður Hvar er að sjálfsögðu bærinn Hvar með sína 3600 íbúa og merkilega sögu miðað við stærð. Hér má til að mynda finna elsta leikhús heims sem opið er almenningi og þá er dómkirkja bæjarins ekkert slor. Á eynni eru þrír aðrir bæir sem eitthvað kveður að; Jelsa, Stari Grad og Suçuraj.

Ferðamennska er smám saman að ýta fiskveiðum til hliðar sem helsta atvinnuvegi eyjaskeggja en meðan hinn almenni vestræni ferðamaður hefur ekki uppgövað þessa paradís er mál að drífa sig sem allra fyrst. Það er ekki spurning um hvenær heldur Hvar.