V ið skulum bara viðurkenna það. Stór ástæða þess að okkur flest langar að ferðast út fyrir steina þessa lands er til að komast í fjölbreyttara úrval verslana erlendis sem jafnframt bjóða vörur á töluvert lægra verði en hér er raunin.

Þrátt fyrir uppgang um langa hríð í Póllandi er verðlag þar enn eitt það allra lægsta í Evrópu. Mynd Alberto Carrasca Casado

Þrátt fyrir uppgang um langa hríð í Póllandi er verðlag þar enn eitt það allra lægsta í Evrópu. Mynd Alberto Carrasca Casado

Samtök verslunarinnar mega mótmæla til endaloka heimsins en staðreyndin er samt sem áður sú að þær eru vandfundnar verslanir erlendis þar sem ekki má gera mikið betri kaup en hér heima. Gildir þar einu hvort litið er vestur um haf eða austur og miðað við verðlag almennt en ekki á útsölutímum þegar vörur fást töluvert ódýrari en ella.

Ritstjórn hefur safnað saman upplýsingum um verðlag á nokkrum vinsælum hlutum og/eða afþreyingu í nokkrum yndislegum borgum heimsins síðustu vikurnar og nú röðin komin að höfuðborg Póllands.

Þangað hefur verið beint flug frá Íslandi um skeið og verður áfram eftir því sem Fararheill kemst næst og það ætti að stækka bros kaupglaðra að í Varsjá er nákvæmlega enginn skortur á verslunum. Þá er verðlag hér nánast einn brandari miðað við kaupin á íslensku eyrinni.

Miðað við gengi krónu gagnvart pólsku zlotí í maí 2021 er verðlag í verslunum hér að meðaltali 140 prósent lægra en í verslunum í Reykjavík. Nokkur dæmi: nýjustu Levi´s gallabuxurnar 7.500 krónur, vinsæl týpa af Nike hlaupaskóm rúmar átta þúsund krónur og flott jakkaföt frá þekktum framleiðendum frá þetta 20 þúsund krónum og uppúr.

Ekki versnar í því þegar kemur að mat og drykk sem auðvitað er stór hluti af öllum góðum ferðalögum. Máltíð á góðum veitingastað í Varsjá kostar að meðaltali 190 prósent minna en svipuð máltíð í Reykjavík. Ódýrt út að borða hér kostar um sexhundruð krónur og ætli fólk á betri stað og borða þríréttað með víni slefar kostnaðurinn upp í 3.400 krónur eða svo. Fyrir bjór á barnum þarf svo að punga út heilum 260 krónum að meðaltali.

Strætóferðin innan borgar kostar 130 krónur og jafnvel þó menn splæsi á sig rúnt með leigubíl kostar startgjald þeirra hér í Varsjá 250 krónur. Lítri af bensíni á bílaleigubílinn tæmir veskið um 160 krónur eða svo.

Sjálfsagt er að benda á að fólk verður sér úti um gistingu í Varsjá á allra, allra hagstæðasta verði með hótelbókunarvél Fararheill hér að neðan. Þann pening sem þar sparast má nota til að kaupa enn meiri varning í þeim fimm stóru verslunarmiðstöðvum sem hér finnast eða í smærri verslunum um allt. Vegvísir okkar um Varsjá gæti komið að notum þar vonum við.

Góða ferð!