Skip to main content

V ið skulum bara viðurkenna það. Stór ástæða þess að okkur flest langar að ferðast út fyrir steina þessa lands er til að komast í fjölbreyttara úrval verslana erlendis sem jafnframt bjóða vörur á töluvert lægra verði en hér er raunin svona heilt yfir.

Almennt þykir Stokkhólmur dýr borg en engu að síður ódýrara að versla þar en hér. Mynd Tobias Lindman

Almennt þykir Stokkhólmur dýr borg en engu að síður ódýrara að versla þar en hér. Mynd Tobias Lindman

Þær eru vandfundnar verslanir erlendis þar sem ekki má gera mikið betri kaup en hér heima. Gildir þar einu hvort litið er vestur um haf eða austur og ekki síst þegar miðað er við kaupmátt í viðkomandi ríki. Sem kunnugt er hefur íslensk króna fallið töluvert undanfarið meðan sænska krónan að mestu staðið í stað.

Ritstjórn hefur safnað saman upplýsingum um verðlag á nokkrum vinsælum hlutum og/eða afþreyingu í nokkrum yndislegum borgum heimsins.

Röðin er komin að Stokkhólmi. Verðlag í verslunum þar í bæ miðað við gengi hinnar íslensku krónu gagnvart þeirri sænsku í apríl 2021 er 5 prósentum lægra en í verslunum í Reykjavík.

Nokkur dæmi um kostnað: hér kosta vinsælar Levi´s gallabuxur tæpar átján þúsund krónur, vinsæl týpa af Nike hlaupaskóm rúmar sextán þúsund krónur og betri jakkaföt frá þekktum merkjum frá 80 þúsundum og upp úr.

Máltíð á góðum veitingastað í Stokkhólmi kostar 6 prósent minna en sams konar máltíð í Reykjavík. Máltíð á því sem flokkast sem ódýr veitingastaður kosta vart undir 1.500 krónum meðan þríréttað á betri veitingastað fyrir tvo fer yfir tíu þúsund krónur að jafnaði. Algengt verð á stórum bjór á veitingastað/bar er um 1.000 krónur.

Stök ferð með strætisvagni / lest innan borgar í Stokkhólmi tæmir 700 krónur úr veskinu meðan startgjald leigubifreiða þar í borg er 850 krónur. Bensínlítrinn kostar kringum 300 krónur.

Það verður seint talið til leiðinda að heimsækja Stokkhólm og fyrir þá sem eru að kíkja þangað fyrsta sinni er þjóðráð að skoða vegvísi okkar til borgarinnar hér. Þar ýmsar fínar ábendingar, myndband, upplýsingar um hitastig, verslunarmiðstöðvar og afsláttarverslanir auk allra bestu hótelbókunarvélar heims.