Feneyjar norðursins hefur höfuðborg Svíþjóðar verið kölluð og ekki alveg að ósekju. Borgin í raun ekkert annað en samansafn fjórtán smáeyja sem tengdar eru saman með brúm og sannarlega upplifun enda afar heillandi umhverfi í stórborg. Lítið fer þó fyrir gondólum og syngjandi Ítalar eru fáséðir en Svíar bæta það upp með öðrum og norrænari hætti.

Virðist það vera nokkuð samdóma álit yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem í Stokkhólmi dvelja í lengri eða skemmri tíma að borgin sé afar lifandi og skemmtileg. Sem hljómar æði klisjulega þangað til upp koma í hugann borgir sem alls ekki falla undir þá skilgreiningu.

Þessi stærsta og fjölmennasta borg á Norðurlöndum er sívinsæll ferðamannastaður en þar búa rúmlega 800 þúsund manns. Hún er mekka Svíþjóðar í flestu tilliti. Hér situr konungurinn og fjölskylda hans, stjórn landsins kemur hér saman og hún er án alls efa fjármálamiðstöð landsins.

Stokkhólmur nær því að vera bæði afar nútímaleg eins og sést best á gler- og stálhýsunum sem standa í borginni en varðveitir einnig sitt gamalgróna í hinum heillandi gamla bæ, Gamla Stan. Þá er Stokkhólmur og fremst borga þegar kemur að hinum græna lit náttúrunnar en fáar stórborgir heimsins státa af jafnmiklu flæmi garða og skóga innan borgarmarkanna.

Borginni er skipt niður í heil 71 hverfi en þau allra helstu sem ferðamenn ættu að kunna skil á eru:

  • Norrmalm – er það sem borgarbúar sjálfir kalla miðbæinn. Þar er margt það helsta sem skoðunar er vert í borginni. Þar er Drottningargatan og helstu samgöngumiðstöðvar Stokkhólms
  • Östermalm – er utan við miðbæinn en þar er mikið líf í verslunum og næturlíf þar ekki síðra. Þar má finna Stureplan torg, Djurgården og mörg söfn borgarinnar meðal annars.
  • Gamla Stan – er gamli bærinn eins og hann leggur sig. Heillandi heimur fortíðarinnar sem vel hefur verið varðveittur. Þarna er Þinghúsið til staðar.
  • Södermalm – fjöldi verslana og veitingastaða finnast hér en hverfið allt er í nokkurri niðurníðslu og töluvert lakara heim að sækja en aðrir hlutar borgarinnar. Gjarnan kallað SoFo í stíl við Soho hverfið í London.
  • Kungsholmen – er vestasta eyjan í miðborgarhluta Stokkhólms. Hefur fengið andlitslyftingu síðustu árin og þar er Ráðhúsið til húsa.

Loftslag og ljúflegheit

Norrænt loftslag er einkennandi hér ef svo má að orði komast. Sumrin mild, hlý og björt en veturnir dimmir og yfirleitt í kaldari kantinum meira að segja frá íslensku sjónarhorni. Fimm stiga frost er þannig meðaltal fyrir janúar mánuð en hitinn leitar upp í fjórtán gráður að meðaltali í júlí.

Til og frá

Einir fjórir flugvellir eru notaðir til að þjónusta Stokkhólm og nágrenni en aðeins einn þeirra, Arlanda flugvöllur, er eingöngu fyrir alþjóðaflug. Reyndar hafa lágfargjaldaflugfélög notað flugvellina við Skavsta og Västerås um tíma en Bromma flugvöllur er fyrst og fremst fyrir fragt og innanlandsflug.

>Arlanda

Sá er í 40 kílómetra fjarlægð frá borginni og tekur það milli 40 og 50 mínútur að fara á milli. Leigubifreiðar taka fast gjald fyrir skutl í miðborgina sem er gróflega kringum 9 þúsund krónur. Tekur túrinn 40 mínútur.

Fyrir 3.800 krónur er hægt að taka flugvallarskutlu, Airportshuttle, að völdum hótelum í miðborg Stokkhólms.

Þá er einnig hraðlest í boði beint frá flugvellinum. Arlanda Express lestin fer til og frá á fimmtán mínútna fresti og er aðeins 20 mínútur á leiðinni. Punga þarf út 4.800 krónum fyrir far með henni aðra leið en á stöku tímabilum er hægt að kaupa miða fyrir tvo fullorðna fyrir 5.500 krónur ef keypt er fyrirfram gegnum netið. Kaupið miða fyrirfram ef hægt er því aukagjald bætist við í lestinni sjálfri. Sjá heimasíðuna hér. Lestarpallarnir eru undir flugstöðinni og er leiðinni haldið á Aðalstöðina í miðborg Stokkhólms.

Ódýrasti kostur ferðalanga er að fara milli með flugrútu. Flygbussarna fara reglulega til og frá og kostar stakt far 1.800 krónur en helmingur þess fyrir fólk undir 25 ára aldri. Það gildir þó aðeins ef keypt er gegnum netið. Tekur ferð með þeim 45 mínútur.

Enn ódýrari kostur en tímafrekur er að taka bæði rútu og lest. Vagn númer 583 fer frá Arlanda til bæjarins Märsta en þaðan fer lest til Stokkhólms. Þessi kostur tekur ekki undir klukkustund en prísinn er aðeins 1.600 krónur.

Hingað fljúga meðal annars lágfargjaldaflugfélögin Wizzair og Ryanair auk fleiri. Völlurinn er í hundrað kílómetra fjarlægð frá Stokkhólmi og tekur ferðalag til og frá rúma klukkustund að lágmarki.

Aðeins eru rútur í boði héðan en húrrandi samkeppni er milli þriggja rútufyrirtækja. Svo grimm reyndar samkeppni að verðin eru öll þau sömu. Hér er eitt fyrirtækjanna og hægt að kaupa miða þar ellegar í flugstöðinni sjálfri. Verðið nemur 3.000 krónum og tekur ferðalagið 80 mínútur.

> Västerås

Sveitaflugvöllur dauðans en nothæfur og það nýtir meðal annars Ryanair flugfélagið sér ítarlega. Héðan eru einnig hundrað kílómetrar til Stokkhólms og einnig aðeins rútur í boði. Ferðalagið tekur rúma klukkustund og kostar 2.900 krónur.

Samgöngur og snatterí

Samgöngukerfið í Stokkhólmi er viðamikið, fljótlegt og þægilegt í alla staði en töluvert dýrt fyrir dætur og syni íslensku krónunnar. Allar tegundir farartækja þvælast um með fólk hér frá almennum lestum til úthverfi til strætisvagna, léttlesta, sporvagna, báta og jarðlestakerfi borgarinnar er ótrúlega gott. Sömu verð og miðar gilda í öll tækin en lengd ferðalags segir til um hversu marga miða skal nota í hvert sinn. Þannig þarf frá 2 hverfa miðum til sex hverfa miða til að komast leiðar sinnar um borgina alla.

Stakur miði, kontantkupong, gildir í 60 mínútur og kostar 410 krónur íslenskar. Vænlegra er fyrir ferðafólk sem staldrar stutt við að punga út 3200 krónum fyrir 16 hverfa miða, förköpsremsa, en sá gildir ótakmarkað tímalega séð. Þá eru og ágæt kaup í sólarhringskorti sem kostar 2.500 krónur og veitir ótakmarkaða heimild innan þess tíma. Fleiri kort eru í boði en töluvert dýrari. Sjá má yfirlit og leiðakerfi á vef AB Storstockholms Lokaltrafik hér.

Öllu dýrari en gæti hentað sumum er Stockholmskortet. Kostar ódýrasta slíka kortið 9.300 krónur en veitir ótakmarkaða notkun á almenningsfarartækjum og frían aðgang að nokkrum tugum safna í borginni í einn dag.

Áberandi besta leiðin milli staða innan borgarmarkanna er með jarðlest, metró eða Tunnelbanen eins og Svíar kalla kerfið. Yfir hundrað stöðvar eru í Stokkhólmi og kerfið hratt og öruggt. Lestirnar ganga frá 06 á morgnana til 01 á næturnar og alla nóttina um helgar. Leiðakerfi metró hér.

Hefðbundnar farþegarlestir, pendeltåg, fara einnig um í Stokkhólmi en áfangastaður þeirra flestra eru bæir utan borgarmarkanna. Ólíklegt er að ferðafólk hafi mikið not af þeim nema smábæir og þorp utan Stokkhólms séu í sérstöku uppáhaldi.

Á þá fáu staði sem jarðlestakerfið nær ekki yfir er um strætisvagna að ræða og í stöku tilfellum ferjur eða báta. Strætisvagnarnir eru annaðhvort bláir eða rauðir. Þeir bláu aka eingöngu um innri bæinn meðan þeir rauðu fara lengra út í hverfin.

Hin afar skemmtilega nefndi Þverbani, Tvärbana, er léttlest sem fer frá vestri til austurs í miðborginni. Er þá upptalið léttlestakerfi borgarinnar.

Þær ferjur sem eru innan samgöngukerfis borgarinnar eru þær sem fara til Djurgården og Skeppsholmen. Hefðbundnir miðar gilda einnig þar. Allar aðrar ferjur eru einkareknar og töluvert dýrari.

Góður kostur í Stokkhólmi, sérstaklega á sumrin, er að þvælast um á hjóli en margar hjólaleigur eru í borginni og borgin sjálf útvegar leiguhjól sem standa víða. Auðvelt er að hjóla um enda sérstakir stígar víða og ökumenn bera virðingu fyrir hjólandi fólki. Á heimasíðunni hér má sjá hvar hjól má leigja en til þess þarf að kaupa svokallað hjólakort, cykelkort, sem einnig fæst á netinu og á upplýsingamiðstöðvum í Stokkhólmi. Mismunandi kort eru í boði og prísinn eftir því. Skila verður leiguhjólum á þriggja stunda fresti.

Nóg er af leigubílum hér en þeir eru dýrir og það sem verra er að eftirlit með þeim er lítið og gjaldtaka frjáls. Það þýðir að hver bílstjóri ákvarðar verð sín sjálfur. Best er að ganga út skugga um verð áður en lagt er í hann. Löglegir leigubílar hafa gular númeraplötur en margir aðrir bjóða þessa þjónustu án tilskilinna leyfa. Yfirleitt er í góðu lagi að taka sér far með slíkum bílum en verðin eru ekki ódýrari. Langflestir leigubílstjórar taka debet- og kredikort.

Bílaleigubíll er einn möguleikinn hér en varla þess virði. Þeir eru í dýrari kantinum, umferð er þung og seinleg á álagstímum. Þá er og sérstakt mengunargjald lagt á allar bifreiðar þegar ekið er inn í miðborgina á vinnutíma og bætast þá að minnsta kosti 400 krónur við.

Söfn og sjónarspil

>> Vasa safnið (Vasamuseet) – Herskipið Vasa var á sínum tíma eitt hið stærsta og öflugasta herskip síns tíma og hefði vafalítið getað breytt sögunni Svíum í vil hefði það komist á haf út. Skútan sökk þó við sín fyrstu kynni af vatni og lá á kafi í höfninni í Stokkhólmi þangað til mönnum hugkvæmdist að lyfta því af hafsbotni og byggja safn kringum það fyrir nokkrum áratugum síðan. Nánar hér. Opið 8:30 – 18 alla daga á sumrin en 10 – 16 á veturna. Aðgöngumiðinn 2.400 krónur fyrir fullorðna en frítt öllum yngri en 17 ára. Strætisvagn 47 frá Aðalstöðinni ellegar sporvagn 7 frá Norrmalstorgi. Heimasíðan.

>> Skansinn (Skansen) – Án efa merkilegasta og þekktasta safn Svíþjóðar og gott að gefa sér minnst einn heilan dag hér enda fjölmargt að sjá, skoða og prófa. Skansinn er samnefni yfir fjölda safna, gamalla bygginga, dýrasafna, veitinga- og kaffihúsa á einu og sama svæðinu á eynni Djurgården og var fyrsta safn heimsins undir beru lofti. Hér er gott að vera ekki síst ef veður er gott og aðgangseyrir í lægri kantinum eða 2.500 krónur fyrir fullorðna. Reyndar er mismunandi aðgangseyrir eftir tíma árs og tíma dags. Opið daglega frá 10 – 22 á sumrin en aldrei skemur en frá 10 – 15 á veturna. Strætisvagn 47 kemur þér hingað ellegar er hægt að taka far með Djurgården ferjunni. Heimasíðan.

>> Sögusafnið (Historiska Museet) – Sögu lands og þjóðar gerð skil hér með góðri slettu af víkingum og tíma þeirra. Áhugavert fyrir söguskvettur. Strætisvagnar 44 eða 47. Opið 10 – 17 á sumrin en 11 – 17 á veturnar. Aðgangur 1600 krónur en frítt öllum yngri en 19 ára. Heimasíðan.

>> Nútímalistasafnið (Moderna Museet) – Eitt af betri listasöfnum Norðurlanda. Reglulega fínar farandsýningar á verkum meistara heimsins. Byggingin sjálf ekker slor. Strætisvagn 65. Opið 10 – 20 á þriðjudögum en 10 – 18 aðra daga. Lokað mánudaga. Aðgangseyrir 1800 krónur. Heimasíðan.

>> Þjóðminjasafnið (Nationalmuseum) – Þjóðminjasafn Svía en alls ekki einskorðað við það sem sænskt er. Þvert á móti er fjöldi verka hér af erlendum toga og slatti eftir meistara á borð við Degas, Renoir og Goya. Strætisvagn 65 frá Aðalstöðinni. Sumartími 11 – 17 og til klukkan 20 á þriðjudögum. Lokað mánudaga. Vetrartími sá sami nema einnig opið frameftir á fimmtudögum. 2.200 krónu aðgangseyrir. Heimasíðan.

>> Waldimarssuddinn (Prins Eugens Waldemarsudde) – Prins þessi var mikill listaverkasafnari og höll hans í Djurgården undirlögð af fallegum og frægum verkum. Höllin og verkin til sýnis. Strætisvagn 47 til Djurgården. Opið 11 – 17 alla daga nema mánudaga. Opið til 20 á fimmtudögum. Prísinn 2.000 krónur en frítt fyrir 19 ára og yngri. Heimasíðan.

>> Garður Milles (Millesgården) – Carl Mille er einn af frægustu listamönnum Svía og hefur heimili hans og vinnustofu verið breytt í fallegt safn. Vel þess virði að kíkja. Metró til Ropsten og þaðan Lidingöbanen lestin til Baggeby. Opið 11 – 17 alla daga. Punga verður út 1.700 krónum sértu fullorðinn. Heimasíðan.

>> Norræna safnið (Nordiska Museet) – Hið sænska norræna safn á Djurgården er nánast eingöngu helgað sænskri list og sögu. Strætisvagn 47. Opið alla daga milli 10 og 16. Aðgangur 1400 kallinn. Heimasíðan.

>> Nóbelssafnið (Nobelmuseet) – Nóbelsverðlaunin heimsfrægu er sænsk hugarsmíð Alfred Nobel og á þessu safni má finna ýmislegt er þeim verðlaunum tengist. Metró Gamli Stan. Opið 10 – 17 á sumrin en 11 – 17 á veturna. Miðaverð 1900 fyrir fullorðna. Heimasíðan.

>> Náttúrufræðisafnið (Naturhistoriske riksmuseet) – Velþekkt og gott safn en eðli málsins samkvæmt keimlíkt öðrum slíkum söfnum. Strætisvagn númer 40. Opið mjög misjafnt en alltaf milli 11 – 17 sumar og vetur. 2100 krónur ef á gamals aldri en frítt öllum yngri en 19 ára. Heimasíðan.

>> Abba safnið (Abba the Museum) – Loks í maí 2013 datt mönnum í hug að setja á fót safn til heiðurs þeirri hljómsveit sem næsta ein síns liðs kom sænskri tónlist á framfæri við heiminn á sínum tíma. Abba er kannski ekki allra en safnið er skemmtilegt heimsóknar hvort sem er. Það er staðsett á fínum stað við Djurgårdsvagen 68 og fínt að eyða tveimur klukkustundum hér. Sporvagn 7 frá Sergelstorginu að Gröna Lund eða enn skemmtilegra með Djurgårdsferjunni við Slussen og að sama stað. Opið alla daga 10 til 22. Miðaverð 3.800 krónur fyrir fullorðinn. Heimasíðan.

>> Tæknisafnið (Tekniska Museet) – Svíar eru þúsundþjalasmiðir miklir og eiga tilkall til fjölmargra tækninýjunga gegnum tíðina. Hér er tæpt á því helsta og margt forvitnilegt ber fyrir augu. Strætisvagn 69. Opið 10 – 17 virka daga og til 20 á miðvikudagskvöldum. Milli 11 – 17 um helgar. Frítt inn eftir kl. 17 á miðvikudögum. Miðaverð annars 1700 krónur og helmingur þess fyrir börn og unglinga. Heimasíðan.

>> Menningarhúsið (Kulturhuset) – Sambland listahúss og bókasafn og þar má líka finna veitingastað og kaffihús. Eðal staður til afslöppunar og reglulega eru forvitnilegar sýningar í boði. Metró að Sergels torgi. Opið 11 – 19 virka daga og 11 – 17 um helgar. Húsið opið öllum en greiða þarf fyrir stöku sýningar þar. Heimasíðan.

Til umhugsunar: Fyrir utan hefðbundin söfn er listaflóran í Stokkhólmi afar lifandi og ansi víða sem settar eru upp smærri sýningar í galleríum eða vöruhúsum. Öllu slíku er gerð góð skil á bæklingum sem liggja frammi á upplýsingamiðstöðvum hverju sinni. Mörg gallerí finnast til dæmis við Hornsgatan og Hudiksvallsgatan.

>> Tivoli Gröna Lund – Skemmtigarður fyrir alla fjölskylduna í Djurgården. Ekkert stórkostlegt en smáfólkið gleymir sér strax. Strætó 44 eða 47. Opið 12 – 22 alla daga frá apríl til septemberloka. Aðgangseyrir 2200 krónur fyrir alla eldri en sjö ára. Greiða þarf svo sérstaklega í tækin á svæðinu. Heimasíðan.

>> Junibacken – Lifandi sagnahús kalla Svíar þetta en þar með er dregin fjöður yfir þá staðreynd að um skemmtigarð er að ræða. Þessi reyndar merkilegur fyrir þær sakir að þarna er öllum karakterum barnabókahöfundarins Astrid Lindgren gerð góð og skemmtileg skil. Lína Langsokkur, Emil í Kattholti og fleiri góðir gestir þvælast um svæðið og skemmta. Strætisvagnar 44 eða 47. Opið 9 – 18 á sumrin en 10 – 17 á veturna. 2800 krónur fullorðnir en börn niður að þriggja ára aldri greiða 2400 krónur. Heimasíðan.

>> Stockholm Globe Arenas – Risastór hvítur hnöttur rís hátt yfir þökum Stokkhólms og er áberandi nánast alls staðar í borginni. Er þetta sýninga, íþrótta- og ráðstefnusalur mikill og svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir að nú er búið að koma fyrir útsýnispalli á toppi hnattarins og sést þar allt sem sést getur í mílufjarlægð. Metró að Globen. Opið á mismunandi tímum eftir því hvort og hvað er í gangi en útsýnispallurinn opinn daglega og fram á kvöld. Heimasíðan.

>> Ráðhús Stokkhólms (Stadshuset) – Tilþrifamikil bygging þess stendur í miðbænum en þar fer fram Nóbelsverðlaunahátíðin ár hvert. Skoðunarferðir eru í boði daglega klukkan 10, 12 og 14 á sænsku eða ensku en hver slík ferð tekur 45 mínútur. Opið daglega. Prísinn 1900 fyrir fullorðna en 700 fyrir börn og unglinga. Ódýrara er að fara á veturna. Heimasíðan.

>> Konungshöllin (De Kungliga Slotten) – Hluti konungshallarinnar er til sýnis og er hún mikilfengleg eins og flestar slíkar eru. Opið daglega 10 – 16 á sumrin og 12 – 16 á veturna. Lokað mánudaga. Aðgangur að öllu sem þar er að sjá kostar fullorðna 2600 krónur. Heimasíðan.

>> Skerjagarðurinn (Skärgården) – Engar grafgötur þarf að fara um hvað er allra mest heillandi við Stokkhólm en það er lega borgarinnar á skerjum og eyjum í mynni Eystrasalts. Þúsundir eyja liggja beint undan borginni og eru flestar þeirra auðar smáeyjar. Þó eru hótel eða gistihús á sumum þeirra stærri. Bátsferð um þessar slóðir er ógleymanleg og gefur hvað besta mynd af borginni sjálfri úr fjarska. Fjölmargir aðilar bjóða slíkt og þarf ekki annað en rölta niður að bryggjuhverfinu til að rekast á fyrirtæki sem það bjóða. Frá Stokkhólmi eru einnig reglulegar ferjur til nágrannalandann og Álandseyja.

>> Bromma kirkja (Bromma kyrke) – Fallegasta guðshús borgarinnar er þessi kirkja í vesturhluta borgarinnar. Hún er einnig ein sú elsta. Griðastaður frá erlinum ef svo ber undir.

Verslun og viðskipti

Lítill vafi leikur á að gott úrval er af innanstokksmunum og fatnaði í Stokkhólmi og Svíþjóð allri. En hlutirnir kosta sitt og hætt við að íslensk veski yrðu fljótt tómleg hér. Sé lífið óbærilegt án þess að spreða einhverjum seðlum eru þetta helstu staðirnir.

Gamle Stan er vettvangur fjölmargra verslana, smárra og stórra, og þar er ætíð iðandi mannlíf flesta daga. Hér eru auðvitað allar vörur með himinhárri álagningu enda besti staður bæjarins en úrvalið gott. Þá rísa hér bestu jólamarkaðir Svíþjóðar þegar nær dregur jólum.

Drottninggatan er verslunargata mikil líka en úrval verslana töluvert fábreyttara. Alþjóðlegar keðjur finnast hér og stórar sænskar keðjur eins og Ahlens og PUB. Hér er álagningarprósentan á vörum einnig í hæstu hæðum.

Norrmalmstorg og nágrenni er enn eitt verslunarhverfið í dýrari kantinum en við því er að búast enda hér að finna tískuverslanir á borð við Louis Vuitton, Armani og Gucci. Hækkaði heimildina á kortinu verulega ef þú ætlar að staldra við hér mikið.

Tvö hverfi sérstaklega standa upp úr varðandi gæði og viðunandi verð. Við Götgatsbacken í Södermalm er fjöldi smærri fataverslana með ágætt úrval og vörur þótt vörumerkin séu minna þekkt. Þar er einnig að finna Bruno verslunarmiðstöðina sem er lítið og nett. Rétt suður af Södermalm má finna SoFo hverfið svokallaða þar sem einnig er töluverður fjöldi smærri verslana með fatnað fyrst og fremst en einnig aðra gripi af ýmsum toga. Verð hér einnig mun bærilegri en gengur og gerist í Stokkhólmi.

Outlet verslanir eru að ná sér á strik í Svíþjóð en enn sem komið er er í raun aðeins ein slík miðstöð með fjölda verslana á einum og sama staðnum. Er það Stockholm Quality Outlet við verslun Ikea í útjaðri Stokkhólms. Taka þarf strætisvagn númer 567 frá Aðalstöðinni til að komast þangað sem tekur vart undir 30 mínútum. Heimasíðan hér.

Matur og drykkur

Stokkhólmur er jafn dýr hvað mat varðar og annað og gera má ráð fyrir að aðalréttur á sæmilegum veitingastað kosti sjaldan minna en 3400 krónur en oftar meira en það. Sama gildir um drykki þó þeir sér ódýrari hér en í Noregi. Sé verið að ferðast með lágmarks tilkostnaði er vænlegast að útbúa mat sinn sjálfur sé þess kostur. Reykingar eru alfarið bannaðar á öllum veitingastöðum og börum Stokkhólms.

Margir smærri staðir bjóða rétt dagsins í hádeginu sem er venjulega aðeins ódýrari en aðrir réttir. 1400 krónur er nærri lagi fyrir slíkan rétt þessa dagana.

Til umhugsunar: Hafið í huga að furðu margir veitingastaðir loka í tvær til þrjár vikur í lok júlí og vel inn í ágúst vegna sumarfría.

Líf og limir

Stokkhólmur er tiltölulega örugg borg fyrir ferðafólk enda það ekki mikið á þvælingi í úthverfum þar sem ryskingar milli innflytjenda og innfæddra gerast annars lagið. Engar áhyggjur skal hafa á brautarstöðvum eða á götu úti í miðbænum þó reyndar sé Aðalstöð borgarinnar vel þekkt sem áningarstaður fíkniefnaneytenda.

Hópur nýnasista gerir annars lagið usla í úthverfinu Salem en það er víðs fjarri áfangastöðum allra ferðamanna.

View Larger Map