Skip to main content

Ö nnur fjölmennasta borg Englands á eftir London er Birmingham sem tilheyrir West Midlands svæði Bretlands sem er eins og nafnið gefur til kynna í miðju landsins. Vegur hennar var stór og mikill á öldum áður þegar Bretar framleiddu vörur sem eftirsóttar voru um heim allan. Þetta var sem sagt iðnaðarborg með stóru I-i og eins og aðrar slíkar fór tíminn illa með hana.

Birmingham sver sig í ætt við Glasgow fyrir þá sem hana þekkja. Iðnaðarborg sem reynir mikið að fela þá sögu enda skildi hún lítið eftir nema sót, kol og drullu. Stutt labb inn í eldri íbúðahverfi færir heim sanninn um að þó helstu götur líti vel út og stöku byggingar hér séu stórkostlegar á enn eftir að skrúbba og skúra í nokkra áratugi í viðbót áður en borgin getur talist falleg.

Borgaryfirvöld hafa þó virkilega tekið sig á og hér risið síðustu ár mannvirki sem vekja eftirtekt og áhuga. Þar fremst jafningja nýtt risastórt bókasafn borgarinnar. Það sannarlega heimsóknar virði en það hlýtur að vekja spurningar að byggja stórglæsilegt bókasafn þegar Bretar almennt lesa sífellt minna og rafbækur eru að taka við af pappír.

Heimsókn hingað skilur ekkert stórt bros eftir á vörum gesta. Að frátöldum stöku byggingum, kósí viktorískum knæpum og kannski stöku verslunum hefur Birmingham lítið upp á að bjóða. Fólk hér er fremur afundið á breskan mælikvarða, svo mjög reyndar að Englendingar sjálfir tala um það. Mörgum þykir og hreimur heimamanna hér lítt spennandi og vissulega getur tekið meiri tíma að skilja þá hér en í London eða Manchester svo tvö dæmi séu tekin.

Þá eru innflytjendur stærri hluti borgarbúa en raunin er víðast annars staðar. Það skýrist meðal annars af því að borginni hnignaði svo mjög um tíma að hvergi fannst ódýrara húsnæði lengi vel en hér. Sum hverfi hér eru nánast eingöngu hverfi múslima.

[alert]Fyrir ekki svo löngu síðan sagði „virtur“ sérfræðingur á sjónvarpsstöð Fox í Bandaríkjunum að Birmingham væri meira og minna múslímskt ríki og þangað færi enginn heilvita maður. Þetta er kjaftæði út í eitt.[/alert]

Til og frá

Alþjóðaflugvöllur Birmingham, Birmingham International Airport, er í útjaðri borgarinnar. Sá er þokkalega stór og vel tengdur en kominn til ára sinna.

Frá flugvellinum er hægt að hóa í leigara og aka í miðborgina á 20 til 30 mínútum eða svo. Óhætt að gera ráð fyrir að sá túr kosti 3.600 til 4.400 aðra leið.

Strætisvagnar fara líka frá og til flugvallarins. Vagn númer 900 fer beint á milli miðborgarinnar og flugvallarins á 15 mínútna fresti virka daga og hálftíma fresti annars. Miðaverð 360 krónur eða svo. Annar möguleiki er að stíga um borð í vagn 97 sem einnig fer í miðborgina en fer aðeins lengri leið.

Það er dálítið dæmigert fyrir Breta að setja upp lestarkerfi sem reynist svo flóknara en strætókerfi. Það er lest sem fer á nokkurra mínútna fresti milli borgar og flugvallarins en það þarf að hoppa um borð í eina léttlest fyrst. Sú flytur fólk skamman spöl frá flugvellinum að lestarstöð vallarins og þaðan hægt að taka lest beint inn í borg. Léttlestin er ókeypis en far með lest inn í miðborg, New Street stöð, tekur tíu mínútur og kostar milli 600 og 1.500 krónum.

Til umhugsunar: Frá lestarstöðinni ganga lestir í allar áttir og héðan hægt að fara norður til Manchester eða suður til London ef því er að skipta. Komist er til London á 70 mínútum svo dæmi sé tekið.

Samgöngur og skottúrar

Sé um stutt stopp að ræða er líklega lítil þörf að fara í saumana á almenningssamgöngum hér í borg. Borgin er stór en þau svæði sem ferðamenn heillast af eru á litlu svæði í gamla miðborgarhlutanum. Þar er allt í göngufæri.

Við mælum samt með bílaleigubíl því það er töluvert meira markvert í grennd við borgina en í henni sjálfri.

Að því sögðu er hér hreint ágætt strætisvagnakerfi og dugi það ekki til ganga lestir á milli úthverfa hér og lengra reglulega. Það er meira að segja hægt að hoppa um borð í fljótabát hér sem fer reglulega milli staða í borginni ef út í það er farið. Strætó er einkarekinn hér í borg eins og víðar í hinu hnignandi Bretaveldi. Hér má finna leiðakort langi fólk á sérstaka staði. Stakur miði kostar 230 krónur.

Bátsferðir eru oftar en ekki indælar og á þeim bænum er nokkur samkeppni langi fólk að rúnta um skurði Birmingham og nágrennis. Borgin stærir sig meira að segja af því að hér eru fleiri og lengri skipaskurðir en finnast í Feneyjum sjálfum.

Söfn og sjónarspil

Sem fyrr segir er Birmingham ekki sérstaklega fræg fyrir marga hluti. Hér að neðan eru listaðir helstu staðir sem ráð er að gefa sér tíma til. Listinn þó ekki tæmandi á neinn hátt. Óhætt að hafa í huga að þó borgin sjálf sé ekki mekka eins né neins er æði margt forvitnilegt í næsta nágrenni við hana.

>> Borgarbókasafnið (Birmingham Library)  –  Þessi bygging er kostuleg bæði að innan og utan og auðvitað frítt inn. Hún er áberandi í miðborginni og á stundum opin frameftir kvöldum.

>> Sjávarsafnið (Sea Life)  –  Vinsælt aðdráttarafl í Birmingham er þetta sædýrasafn við Brindley Place á bakka annars af tveimur skipaskurðum sem liggja gegnum borgina. Helst til yfirborðskennt en engin spurning að smáfólkið á eftir að skemmta sér vel hér. Á vissum tímum geta gestir meira að segja gefið dýrunum mat. Lest að Birmingham New Street eða strætisvagnar til Broad Street. Sjávarsafnið er í ágætu göngufæri frá miðborginni ef enginn er flýtirinn. Opið 10 til 18 daglega. Miðaverð 4.000 við innganginn en 2.400 ef keypt fyrirfram á netinu. Heimasíðan.

>> Vísindasafnið (Thinktank Science Museum)  –  Annað safn sem smáfólkið hefur gaman að og líklega einhverjir eldri líka er þetta safn sem helgað er vísindum vitanlega en þó með sérstakri áherslu á þau áhrif sem tækni og vísindi höfðu á iðnað í Birmingham. Hér má til að mynda sjá glæsilegar Spitfire vélar úr Seinni heimsstyrjöldinni en margar þeirra voru smíðaðar hér. Glæsileg sýning tileinkuð geimvísindum auk margs annars. Opið 10 til 17 daglega. Millennium Point. Strætisvagnar 14 eða 55 að Jennens Road. Miðaverð 2.400 krónur. Heimasíðan.

>> Heimur Cadbury (Cadbury´s World)  –  Súkkulaðiframleiðandinn Cadbury er staðsettur í Birmingham og hefur verið frá aldaöðli. Verksmiðjurnar reyndar margar lokaðar en safn eitt um framleiðsluna og söguna er nokkuð ágætt heimsóknar. Bóka verður miða með fyrirvara á netinu. Opnunartímar afar mismunandi eftir árstíðum. Safnið finnst við Linden Road til suðvesturs af borginni. Lest eða bátur að Bournville stöð þaðan sem fimmtán mínútur tekur að komast að safninu. Aðgangseyrir 2.800 krónur. Heimasíðan.

>> Sjónvarpsstöð BBC (BBC Public Space)  –  Forvitnir geta fræðst töluvert um starfsemi BBC hér í bæ og jafnframt leikið sér aðeins fyrir framan alvöru myndavélar ef svo ber undir. Opið þriðju-, miðviku- og laugardaga en allir túrar eru undir leiðsögn. The Mailbox, Wharfside Street. Frír aðgangur.

>> Módelsafnið (Wonderful World of Trains and Planes)  –  Tilkomumikið og stórt safn lesta og flugvéla í módelformi. Áhugamenn gætu enst hér í nokkrar vikur en lágt spennustig fyrir aðra. Mary Ann Street við torg St. Paul. Næstu lestarstöðvar eru Moor Street og New Street en fimmtán mínútna gangur frá þeim báðum. Opið miðviku- til sunnudags frá 10 til 17. Heimasíðan.

>> Listasafn Birmingham (Birmingham Museum & Art Gallery)  –  Besta safnið í borginni er þetta hér. Sýningar fjölbreyttar og reyndar mismunandi eftir tímum en almennt má hér forvitnast bæði um borgina og hennar sögu og ekki síður sögu tiltekinna hverfa. Þá er hér líka þungi settur á verk eftir þá sem eru héðan. Virkilega fínt safn við Chamberlain torg. Opið 10 til 17 daglega. Aðgangur frír nema á sérsýningar. Heimasíðan.

>> Skartgripahverfið (Jewellery Quarter)  –  Birmingham hefur um langa hríð verið sá staður í Bretlandi þar sem verslun og vinna með skart, gull og demanta er hvað mest og í þeim hluta borgarinnar þar sem þeir aðilar eru fjölmennastir má finna yfir eitt hundrað verslanir með djásn og glingur af ýmsu tagi. Hverfið sjálft hefur tekið stakkaskiptum á örfáum árum og með tilkomu klúbba, veitingastaða og vinsælla bara er þetta án efa það hverfi Birmingham sem er á mestri uppleið. Þar kunna menn líka að ota sínum tota og hafa útbúið sérstakan vef sem finna má hér.

 >> Nútímalistagalleríið (Ikon Gallery)  –   Fremsta nútímalistaverkasafn Birmingham finnst við Oozells torgið hjá Brindleyplace. Þetta safn kemur raunar á óvart og er virkilega skoðunar vert. Sýningar reyndar breytilegar en undantekningarlítið eitthvað nýtt og spennandi frá þeim listamönnum sem eru á fljúgandi uppleið í heiminum. Opið 11 til 17 alla daga og aðgangur ókeypis. Strætisvagnar 1, 9 og 10 stoppa skammt frá við Broad Street. Heimasíðan.

>> Winterbourne húsið (Winterbourne House & Garden)  –  Dæmigert fyrir Breta að gera að sýningarsal gamalt heimili vellauðugs plebba. Húsið og garðurinn á að vera dæmi um hvernig þeir ríku lifðu í upphafi 20. aldar. Vissulega er garðurinn ekki slæmur og þar að finna fjölmargar fágætar plöntur en að öðru leyti dapurt prógramm. Opið 10 til 17 daglega. Edgbaston Park Road. Miðaverð 1.300 krónur. Heimasíðan.

>> Þjóðarsýningarsalurinn (National Exhibition Centre)  –  Þessi mikli sýningarsalur er reyndar ekki inni í borginni sjálfri heldur næsta hús við flugvöllinn. Það þýðir að gera verður sér töluverða ferð eða drepa tíma hér við að bíða eftir flugi. NEC er mikil höll og innandyra er oftar en ekki töluvert að gerast og viðburðir hér margir árlega. Þetta er stærsti tónleikasalur borgarinnar og hér stíga á svið margir þekktar tónlistarmenn Bretlands með reglulegu millibili.

Til umhugsunar: Önnur stór höll er að rísa við hlið NEC þegar þetta er skrifað. Þar verður nýjasta verslunarmiðstöð borgarinnar og 500 kvikmyndahús og annað þarft fyrir fólk sem kann ekki að hafa ofan af sér.

>> Þjóðarmótorhjólasafnið (National Motorcycle Museum)  –  Ekkert lítið nafn fyrir safn af gömlum mótorhjólum. Enn eitt safnið sem staðsett er nær flugvellinum en miðborginni sjálfri. Hér gefur að líta fleiri tugi hjóla og flest hver komin til ára sinna en eru afar vel með farin. Flott safn og ómissandi fyrir áhugamenn. Coventry Road.  Opið 10 til 18 daglega.

>> Mac listamiðstöðin (Mac Art Center)  –  Velþekkt og vinsæl listamiðstöð er að finna í Cannon Hill Park sem er við Edgbaston Road. Opið alla daga frá 9 til 22.

Verslun og viðskipti

Þó Birmingham skori ekki hátt hvað fegurð eða afþreyingu varðar þá gildir annað um verslun. Hér er óvenju mikill fjöldi verslana og reyndar vilja sumir meina að hvergi í landinu sé meira úrval sérverslana með antíkvörur og dýrara glingur hvers kyns. Sömuleiðis er hér töluverður fjöldi afsláttarverslana þar sem kaupa má aðeins eldri vörur með ríflegum afslætti.

Standi hugur til að gera stórkaup erlendis eða klára jólagjafir í einni ferð er Birmingham mun betri kostur til þess en höfuðborgin London. Verðlag almennt á vörum í verslunum er 20% lægra hér en þar. Munar um minna.

Helstu verslunargötur Birmingham eru þrjár: New Street, High Street og Corporation Street. Vinsælar þekktar verslanir finnast á öllum stöðum og sérstaklega þeim tveimur síðarnefndu. Meira er um litlar óþekktar verslanir í New Street.

Verslunarmiðstöðvar og afsláttarverslanir eru það margar að best er að gera þeim skil á korti.

Matur og mjöður

Enginn einasti skortur er á veitingastöðum hér hvort sem um er að ræða skyndibita eða háklassa stað. Í borginni eða nálægt eru fjórir staðir með Michelin stjörnu og allmargir eru temmilega léttir á pyngjunni.

Purnell´s, Cornwall Street

Adam´s, Bennett Hill

Simpsons, Highfield Road

Turner´s, High Street

 

Rico Libre, Barn Street

Adam´s, Bennett Hill

Warehouse Cafe, Allison Street

Viceroy Tandoori, Icknield Street

 

Líf og limir

Glæpir eru nokkuð tíðir í miðborg Birmingham og að meðaltali 500 til 600 afbrot þar framin í hverjum einasta mánuði. Þar af 100 til 150 alvarlegir glæpir. Vasaþjófar eru hér víða og eðlilega í helstu verslunarmiðstöðvum. Töluvert er um heimilislausa á vappinu hér líka.