N eyðin kennir naktri konu að spinna og sömuleiðis kennir veik króna íslenskum ferðalöngum að leita allra leiða á dýrum áfangastöðum. 

Fararheill getur vottað að húsbátagisting í Hollandi er skemmtilega ferskt ævintýri.

Fararheill getur vottað að húsbátagisting í Hollandi er skemmtilega ferskt ævintýri.

Holland er eitt þeirra landa í Evrópu þar sem krónugreyið er ekki upp á marga fiska og bregður reyndar mörgum við því sæmileg gisting í helstu borgum landsins finnst nánast ekki undir 25 þúsund krónur per nótt. Sem sagt íslensk hótelverð í gangi hér.

Í Amsterdam sérstaklega er töluvert vandamál að finna sæmileg hótel á viðráðanlegu verði en þá er þjóðráð að skoða gistingu í húsbátum í einhverjum af fjölmörgum skurðum borgarinnar.

Víst hljómar það kannski ekki vænlega að troða fjölskyldu í bátskrifli en reyndin er að velflestir kunna vel að meta slíkt auk þess sem slík upplifun gleymist síður en dvöl á enn einu hótelinu.

Fararheill hefur prófað tvær nætur í slíkum bát og hefur yfir engu að kvarta þó vissulega taki stundarkorn að taka það inn að fólk hafi heilan húsbát til umráða plús að ein úr familíunni fann fyrir riðu endrum og sinnum.

Í Hollandi öllu eru alls tíu þúsund húsbátar og fjórðungur þeirra liggur við kajann í einhverjum af mörgum skurðum Amsterdam. Þeir eru af ýmsum gerðum og misdýrir en eiga það sameiginlegt flestir að dvöl í þeim er síst dýrari, og oft ódýrari, en dvöl á hótelum.

Ýmsir halda að það sé galli hversu auðvelt er að brjótast inn í slíka báta en það er hreint ekki auðvelt þegar á hólminn er komið. Trúið okkur, við prófuðum að finna leið inn í bát þann sem ritstjórn leigði sér og gáfumst upp. Þá er líka vakt við vinsælli og stærri skurðina og nánast alltaf fólk á ferli alls staðar.

Kíktu á hótelvef okkar hér að neðan. Eins og lesendur vita finnast þar ekki aðeins hótel og gistihús heldur alls kyns gistimöguleikar og þar á meðal húsbátar. Um hundrað húsbáta um að velja í Amsterdam einni þegar þetta er skrifað. Muna bara að þrengja leitina á stikunni til vinstri og einskorða leit við húsbáta 🙂