Skip to main content

L angódýrasti tíminn til ferðalaga í eða við Karíbahafið, að Flórídaskaga meðtöldum, er undantekningarlítið frá júní og fram að desember ár hvert. Margir átta sig ekki á að þessi tími markar líka gróflega fellibyljatímann á þessum slóðum.

Strandlengjan við Malecon í Havana er jafnan full af lífi og stemmningu. En ekki þegar fellibylur nálgast. Mynd mm-j

Strandlengjan við Malecon í Havana er jafnan full af lífi og stemmningu. En ekki þegar fellibylur nálgast. Mynd mm-j

Ýmsir sem sækja gullnar strendur við Mexíkóflóa frá Flórídaskaga og allt niður til Kólombíu átta sig ekki að þó verðlag á ferðalögum til karabísku eyjanna eða vinsælla ferðamannastaða á borð við New Orleans í Bandaríkjunum, Yucután í Mexíkó eða Cartagena í Kólombíu sé almennt lægra þennan tíma er það nánast eingöngu vegna þess að fellibylir eru æði algengir þennan tíma og hótel því að töluvert tómlegri en ella.

Aðeins þarf einn fellibyl til að eyðileggja eitt stykki frí og það duglega eins og lesa má reglulega um í fréttum. Engar tryggingar dekka kostnað ferðalanga vegna náttúruhamfara fyrir utan að ströndin er ívið minna heillandi þegar vindhraði er 40 metrar á sekúndu.

Auðvitað er þessi tímarammi heldur ekki greyptur í stein. Náttúran fer sínu fram og fellibylir geta fræðilega sprottið upp hvenær sem er. En samkvæmt sögulegum heimildum eru líkurnar langmestar frá júní og fram til desember og mesta líkur þarna í miðjunni.

Ágætt að hafa bak við eyra næst þegar fólk rekst á hreint „ótrúlegt“ ferðatilboð til Karíbahafsins í september, október eða nóvember.