Skip to main content
V ið erum í smá vandræðum með norsku borgina Tromsö. Hún minnir okkur smá á Akureyri, smá á Vestmannaeyjar og smá á Seyðisfjörð. Sem sagt blanda af þessum íslenskum bæjum og það góð blanda. Nema aðeins fjölmennari en allir íslensku bæirnir samanlagt 🙂

Allnokkrir Íslendingar fluttu á norðurslóðir Noregs við bankahrunið heimavið 2008. Þeir flestir hér enn en þeim fjölgar þó líka ferðamönnunum íslensku sem kíkja norður í Noreg. Kannski ástæðan sé einmitt sú að líkindin með borgum, bæjum og fólki á þeim slóðum með Íslandi og Íslendingum er lygilega mikil. Hér líður landanum dálítið eins og heimavið.

Það þó ekki eina ástæða þess að heimsækja Norður-Noreg. Borgin Tromsö er aldeilis fínt dæmi um annað og betra enda þarf þriðja stærsta borg heims norðan heimskautabaugs að bjóða upp á eitthvað spennandi í vetrarkuldunum.

Hingað er flogið nokkrum sinnum daglega frá Osló. Flugið tekur eina og hálfa klukkustund og kostnaðurinn fram og aftur sjaldan meiri en 20 þúsund krónur ef bókað er með smá fyrirvara.

Fararheill mælir með tveimur til þremur dögum hér ef njóta á alls í rólegheitum en svæðið allt í kring er náttúruparadís og sjálfsagt að fjölga dögunum ef njóta á þeirra lystisemda. Hásumartíminn er yndislegur hér sem á farsæla Fróni en ekki verra að eyða hér tíma þegar líða fer að hausti og ekki þarf að berjast um sæti á veitingastöðum og knæpum við tugþúsundir annarra ferðamanna.

Fjallakláfurinn

Útsýnið frá toppi Storsteinen yfir borgina og lengst í allar áttir.

Borgin Tromsö stendur á eyju eins og nafnið gefur til kynna. Nú til dags nær borgin reyndar aðeins út fyrir eyjuna og það er á meginlandinu sem finna má Fjellheisen kláfinn. Það er kláfur sem ferjar áhugasama frá sjávarmáli upp 420 metra á topp fjallsins Storsteinen á sléttum fjórum mínútum eða svo. Einnig er hægt að klífa fjallið eftir steinþrepum en það er önnur saga. Aðalatriðið það að af toppi Storsteinen gefur að líta fimm stjörnu útsýn yfir borgina og næsta nágrenni. Þar er útsýnispallur og auðvitað allfínn veitingastaður, Fjellstua, svona ef þú vilt gera þig heimakominn um hríð. Príma stopp fyrir útsýni og ekki skemmir að Tromsö er svo norðanlega að enginn staður er betri til að vitna eilífa sumarsólina eða Norðurljósin að vetri til. Ómissandi stopp.

Grasagarðurinn

Grös og plöntur sem þú finnur nánast hvergi annars staðar pluma sig vel í grasagarði Tromsö.

Velflestar borgir og bæir heims reka grasagarð og það vel enda margsannað að fólki líður sjaldan betur en umkringt grænum gróðri. Tromsö fór örlítið aðra leið en aðrir staðir og aðallega sökum þess hve bærinn er norðarlega á hnettinum. Í stað þess að planta hefðbundnum plöntum og trjám og vona það besta er grasagarður borgarinnar heimsþekktur fyrir plöntur sem lifa og blómstra sérstaklega í mjög köldu loftslagi. Í garðinum, sem er fjóra kílómetra til austurs af miðborginni, gefur að líta fjallaplöntur frá hæstu og köldustu stöðum heims. Plöntur sem þú allajafna sérð aldrei nokkurn tíma nema klífa Everest í Nepal eða Chimborazo í Andesfjöllum Ekvador. Frábært stopp og auðvelt að komast með strætó eða bara á tveimur jafnfljótum ef tíminn er nægur. Heimasíðan.

Heimsskautasafnið

Þú heldur að þú eigir erfitt…

Söfn eru ekki fyrir alla en ef þú finnur þig í Tromsö og vilt skoða minnst eitt slíkt er Heimsskautasafnið, Polar Museet, við bryggjusporðinn í borginni aldeilis ágætt til brúks. Hér er heimsskautaferðum Norðmanna gerð góð skil en fróðir vita að það voru Norðmenn á borð við Roald Amundsen og Fridtjof Hansen sem voru meðal þeirra allra fyrstu til að þvælast lengst norður og suður á jarðkringluna. Sögu þeirra og fleiri gerð ágæt skil á Heimsskautasafninu gegnum ljósmyndir, ýmsa muni og uppsetningum hvers kyns. Einnig er sérstaklega tekið til hvernig Norðmenn lifðu og björguðu sér á eynni Svalbarða í denn tíð. Lítt ljúft eins og gefur að skilja. Hafa skal hugfast að það er háskólinn í borginni sem rekur Heimsskautasafnið og einnig Tromsö-safnið sem tekur sérstaklega til lífs hér lengst yfir heimsskautabaug. Það safn er líka heimsóknar virði og hægt að fá sæmilegan afslátt ef þú kaupir miða á báða staði í einu. Heimasíðan.

Heimskautakirkjan

Þó allnokkrar byggingar í borginni séu af fallegra taginu og þá sérstaklega mörg gömul eldri timburhús sem vel er við haldið leikur lítill vafi á flottustu byggingunni hér um slóðir. Það er Heimsskautakirkjan sem svo er kölluð á þó nafn hennar á norsku sé Tromsdalen kirke. Hún þó gjarnan líka kölluð Ishavskatedralen eða Íshafskirkjan. Þetta er virkilega glæsileg hönnun og smíð en hún var opnuð árið 1974 og varð fljótt eitt helsta aðdráttarafl borgarinnar. Mörgum þykir hún minna mikið á Óperuhúsið í Sidney í Ástralíu en við hér þó ekki í þeim hópi. Kirkjan líður aðeins fyrir að standa heldur nálægt einni helstu umferðaæð Tromsö sem er tiltölulega glæsileg Tromsö-brúin sem nær hvorki meira né minna en tæplega 40 metra hæð þar sem hún stendur hæst og aldeilis frábært útsýni þaðan í allar áttir. Alveg kjörið að ganga yfir brúna atarna að kirkjunni eða til baka en úr gamla miðbænum tekur það hálfa klukkustund í versta falli. Ella ganga strætisvagnar reglulega á milli ef göngumóðurinn er enginn. Kirkjan sjálf er opin heimsóknar flesta virka daga til skoðunar en best auðvitað að mæta á messutíma um helgar nema þú viljir punga út 800 krónum eða svo. Þá er súper að kanna hvort ekki eru tónleikar í kirkjunni þegar þú ert á ferðinni. Slíkt er algengt og hljómburðurinn fimm stjörnu.

Rakettan

Þú gætir vel rölt um borgina þvera og endilanga og aldrei tekið eftir einum allra minnsta bar í alheiminum. Það allavega er það sem Raketten gefur sig út fyrir að vera og hefur gert allar götur frá árinu 1911 hvorki meira né minna. „Barinn” er í öllu falli sá minnsti í Noregi. Við segjum barinn með gæsalöppum sökum þess að Rakettan er bara pínkulítill gamalsdags söluturn og gulur í þokkabót. Þetta er svona bæjarins besta í Tromsö en með þeim formerkjum að hér er selt áfengi með pullunum. Það öllu gáfulegra og hollara en ropvatn frá Kók eða Pepsi ef þú spyrð okkur. Toppstopp að kvöldlagi um helgar þegar hér safnast saman heimamenn og njóta.

Aukabónus

Aðrir staðir í Tromsö sem fá plús í kladda og eru ferðar virði er dómkirkja borgarinnar, Tromsö Domkirke, en sú er víst sú eina sinnar tegundar í Noregi sem er 100 prósent byggð úr við. Að kirkjuferð lokinni er ráð að bregða undir sig betri fætinum í Ölhöllinni, Ölhallen, en það er elsti pöbb í borginni. Lengi vel var húsnæðið sjálft notað undir framleiðslu bruggfyrirtækisins Mack sem er eini bjórframleiðandi í heimi norðan heimskautabaugs en framleiðslan hefur nú færst annað. Síðast en ekki síst er kostulegt að taka skottúra með bátum hingað og þangað í grenndinni. Víða er náttúrufegurð mikil og fjöldi báta og ferja bjóða skemmri og lengri túra. Fyrir þá alhörðustu er auðvitað súperkælt að koma hingað eða fara héðan með lúxusferjum Hurtigruten annaðhvort lengst til norðurs eða suður til Björgvinjar. En það kostar þó skildinginn.