S tærsta borg Tyrklands er risastór plús mikil og bíla- og mannþröng þar á helstu götum og strætum 365 daga á ári. En hafi menn áhuga að stíga aðeins út úr kösinni og læra að meta borgina í allri sinni dýrð er bátsferð um Bosporus ákjósanleg leið.

Fólk verður margs vísari um Istanbúl á siglingu um borgina.

Fólk verður margs vísari um Istanbúl á siglingu um borgina.

Furðu fáir ferðamenn til Istanbúl kjósa að fara slíka bátsferð og helsta ástæðan talin sú að slíkar ferðir eru nokkuð tímafrekar en meirihluti ferðafólks til Istanbúl er þar í styttri ferðum.

Þannig er stysta opinbera ferðin í boði, Kısa Boğaz Turu, um þrjár klukkustundir meðan lengri ferðirnar og þær sem Fararheill mælir með taka vart undir fimm klukkustundum. Það er vissulega löng borgarferð.

Í Istanbúl er mökkur af fyrirtækjum sem reiðubúin eru að sigla með ferðafólk en hér skal vanda valið. Stór hluti þeirra sem bjóða ferðamönnum siglingar eru að stunda slíkt ólöglega því það er aðeins eitt fyrirtæki með formlega blessun borgaryfirvalda til að ferja ferðamenn.

Şehir Hatları heitir það fyrirtæki og fékk þessa blessun eftir að hafa boðið slíkar ferðir um árabil áfallalaust. Sömu sögu er ekki að segja af öðrum slíkum á svæðinu. Þvert á móti eru aðrir aðilar að bjóða miður öruggar ferjur og báta til ferðalagsins og eru oft á tíðum mun dýrari en opinberi aðilinn samt sem áður. Fimm klukkustunda siglingin með Sehir Hatlari kostar aðeins 1.500 krónur og er því hræbilleg. Mælum sannarlega með slíku. Allt öðruvísi að vitna Istanbúl af sjó en á göngu um borgina.

Nánar um Istanbúl í vegvísi Fararheill um borgina hér.