Skip to main content

Þ egar Baskar lyfta sér upp þá gera þeir það með stæl og bravúr. Til þess duga alls ekki þriggja daga Hvítasunnu- eða Verslunarmannahelgar eins og okkur þykir hreint afbragð. Neibbs, ekki dugar minna en níu dagar samfleytt til að skemmta sér og sínum í Bilbao.

Skemmtun og gleði út í eitt í níu daga samfleytt. Velkomin á Aste Nagusia í Bilbao.

Tökum hattinn ofan fyrir Böskunum, eða alpahúfuna í þessu tilfelli, því húfan atarna er pólitískt tákn í Bilbao og til merkis um að þar fari stoltur Baski. Þær húfurnar algengar almennt í borginni en þeim fjölgar um helming meðan á Aste Nagusia hátíðinni stendur.

Aste Nagusia þýðir Stóravika eða Miklavika en er þó hátíð sem varir linnulaust í níu daga hvorki meira né minna. Ýmsar stofnanir og fyrirtæki loka alfarið þann tíma sem kann að koma einhverjum illa en á móti kemur gleði á götum úti og svo margir viðburðir að þá varla hægt að telja stytta stundirnar duglega.

Ekki skal koma á óvart að baskneskum hefðum er gert hátt undir höfði meðan á hátíðinni stendur. Baskneskur matur er, eins og ferðavanir vita, undantekningarlítið fimm stjörnu og ferðamenn geta prófað aragrúa af réttum hér og þar í miðborginni og margt af því alls ókeypis líka.

Enginn fer svangur frá Aste Nagusia á nokkrum tímapunkti.

Keppt er í minnst sex baskneskum íþróttagreinum á hátíðinni og hér eru líka tröll og risar sem eltast við börn og „borða“ ef til þeirra næst. Börnin enda þó ekki í maga ófreskjanna heldur fá öllu skemmtilegri rússíbanareið eftir rennibrautum niður aftur.

Nautaat er líka vinsæll viðburður hér en Baskarnir lítt fyrir blóð og dauða eins og sumir sunnar í landinu. Hér eru aðeins kálfar sem stökkva út á leikvanginn, horn þeirra dúðuð og enginn þeirra stunginn til dauða. Hér fer líka fram nautahlaup í tilteknum götum en hér aftur eru kálfar á ferð með sömu dúðuðu hornin og þó hætta sé alltaf fyrir hendi er þetta töluvert öruggari skemmtun en alvöru nautahlaupin í Navarra héraði. Hér líka matarslagur á götu úti fyrir þá alhörðustu.

Flugeldasýningar eru öll kvöld meðan á Aste Nagusia stendur og að þeim loknum tónleikar og viðburðir aðrir fyrir þá sem enn hafa orku.

Þá fátt eitt nefnt sem hér fer fram þá daga sem hátíðin stendur en þetta árið hefst hún formlega þann 18. ágúst og lýkur þann 26. ágúst. Aldeilis flott tímasetning því hitastig á Spáni ekki yfirgnæfandi á þeim árstíma.

Ekkert er beint flug héðan til Bilbao en frá öllum helstu borgum landsins er létt verk að negla flug til og frá fyrir litlar upphæðir. Prófaðu Vueling, Ryanair eða easyJet sem öll fljúga mikið innanlands á Spáni.