E ins og Fararheill hefur reglulega bent lesendum á þá eru mörg hostel nútímans verulega frábrugðin þröngum lyktandi kojuplássum sem margir setja í samhengi við þess konar gistingu. Frábrugðin og frábær.

Hjólhýsi á leið á haugana? Ekki aldeilis, þetta er gistihús. Mynd BCB

Hjólhýsi á leið á haugana? Ekki aldeilis, þetta er gistihús. Mynd BCB

Sú lýsing á til dæmis sannarlega við BaseCamp Hostel í Bonn í Þýskalandi. Það er ekki hostel í neinni hefðbundinni merkingu þess orðs.

BaseCamp Hostel samanstendur af gömlum og lúnum en endurbættum hjólhýsum sem standa tugum saman inni á gólfi í risastórri skemmu.

Þetta er einhver albesta hugmynd að okkar mati sem nokkur hefur fengið. Hér fá hjólhýsi sem annars enda á haugunum nýtt líf og gisting margra sem hér dvelja litríkari fyrir vikið. Að nota yfirgefna skemmu í þokkabót er toppur þess að endurnýta hluti svo nútímamaðurinn geti vel við unað. Skemman tryggir líka að það er dálítið líf innandyra og auðvelt að kynnast næsta „nágranna” ef sá gállinn er á.

Fyrir þá sem eru ekki alveg vissir hvar Bonn sé að finna þá stendur sú borg næstum við hlið Kölnar og ekki langt frá Dusseldorf og Frankfurt heldur. Um að gera að prófa nýstárlegan gistikost ef þú ert á ferð hér um og hægt að bóka beint á bókunarvél okkar hér að neðan.