Kannski gera ekki margir Íslendingar sér grein fyrir að finna má stórkostlega strandstaði í Eystrasaltslöndunum. Þó þeir keppi ekki við heitari strendurnar sunnar í álfunni eru strendur við Eystrasalt mun almennt hreinni og sjórinn líka þó aðeins kaldari sé.

Hinn fallegi pólski bær Sopot er einn þeirra sem auglýsa sig fremstan jafningja. Mynd argusfoto

Hinn fallegi pólski bær Sopot er einn þeirra sem auglýsa sig fremstan jafningja. Mynd argusfoto

En þótt okkur hér finnist kannski lítt heillandi að táslast í flæðarmálinu við Eystrasaltið finnst mörgum það stórkostlegt og fjölmargir staðir þar eru fjölsóttir mjög á sumrin. Það kemur til að mynda mörgum á óvart að strendur Eistlands trekkja allt að einni milljón Svía árlega.

Túristinn skilur ætíð eftir sig töluvert af fjármunum og því öllum brögðum beitt til að heilla útlendinga. Ein leið til þess er að næla í spennandi slagorð sem er ástæða þess að eigi færri en fimm mismunandi hér um slóðir staðir kalla sig og auglýsa sem „Perlu Eystrasaltsins.“ Þeir eru í engri sérstakri röð:

♥  Sopot (Pólland) – Vinsælasti sumardvalarstaður Pólverja er smábærinn Sopot og íbúafjöldinn þegar mest er sjöfaldast. Hér eiga líka allir villur sem eitthvað þykjast vera í landinu og hvergi hærri fasteignaverð í öllu landinu. Bærinn er örskammt frá borgunum Gdansk og Gdynia og eðalfínt að rúlla við hér ef verið er að þvælast á þessum slóðum.

♥  Helsinki (Finnland) – Höfuðborg Finnlands gerir tilkall til perlunafnsins og er vel að því nema hvað athyglisvert er að borgarbúar flestir flýja annað þegar hitar eru miklir. Ætti það ekki að gjaldfella nafngiftina strax?

♥  Baltic Pearl (Rússland) – Þar er ekki af Rússum skafið. Þeir ætla sér inn í nútímann á mettíma og af því tilefni er verið að byggja heila borg skammt vestan við Pétursborg sem heitir beinlínis Perla Eystrasaltsins. Þar á allt að vera betra en fyrsta flokks enda sennilega í fyrsta sinn sem heil borg er byggð upp frá grunni eftir nákvæmum teikningum og framtíðarplönum. Forvitnilegt að koma þangað þegar öllu á að ljúka 2021.

♥  Borgundarhólmur (Danmörk) – Auðvitað eiga Danir sinn fulltrúa í keppninni um Perlu Eystrasaltsins. Borgundarhólmur, Bornholm, er velþekkt og falleg lítil eyja sem hefur lengi verið afdrep forstjóra og vellauðugra Dana. Það er aðeins að breytast og þangað er vissulega ágætt að koma.

♥  Jurmala (Lettland) – Strandbærinn Jurmala er einn vinsælasti sumardvalarstaður Letta á sumrin. Fyllast þá nálæg svæði af húsvögnum, tjöldum og öðru þaki yfir haus á þeim þúsundum sem hingað koma. Fallegur staður og sandurinn ótrúlega silkimjúkur miðað við staðsetningu.