Skip to main content

”Hluta­bréf Icelanda­ir hafa hækkað um 3,7% í um 47 millj­óna króna viðskipt­um í morg­un. Í gær­kvöldi bár­ust frétt­ir af því að for­svars­menn flug­véla­fram­leiðand­ans Boeing bú­ist við því að 737 MAX-flug­vél­ar fyr­ir­tæk­is­ins, sem voru kyrr­sett­ar eft­ir tvö mann­skæð slys, muni snúa aft­ur í janú­ar.“

Ein Max-véla Icelandair sem situr nú og safnar ryki. Mynd Boeing

Svo hljómar inngangur fréttar á Mbl þennan daginn sem fjallar um að hlutabréf í Icelandair, og öðrum flugfélögum sem eiga Max-vélar á lager, hafi hækkað töluvert vegna fregna um að forsvarsmenn Boeing telji góður líkur á að Boeing-Max vélar framleiðandans fái flugleyfi að nýju strax í janúar á næsta ári.

Það var og.

Forráðamenn Boeing ekkert sekir um lygar á lygar ofan allar götur frá því að fyrsta Max-vélin steyptist í hafið undan ströndum Indónesíu fyrir rúmu ári síðan. Forráðamenn Boeing ekkert sekir um að selja glænýjar Max-rellur sínar án þess að minnast einu orði á glænýja tækni sem tekur stjórnina af flugmönnum við tilteknar aðstæður. Forráðamenn Boeing ekkert sekir um að ætla að spara sér tugmilljarða króna með því að láta indónesíska dómstóla fremur en bandaríska ákvarða bætur til handa ættingjum þeirra er létust í fyrsta flugslysi Boeing Max.

Þess utan hefur ítrekað komið fram að evrópsk flugmálayfirvöld, hvers ákvarðanir Icelandair þarf að beygja sig undir, ætla sjálf að láta fara fram úttekt á Max-vélum Boeing burtséð frá ákvörðunum Flugmálastjórnar Bandaríkjanna. Sem merkir að þó Kaninn hleypi Max-vélum í loftið mega þær ekki fljúga í evrópskri flughelgi. Ekkert er komið fram um hvenær rannsókn Evrópumannanna lýkur.

Síðast en ekki síst er bara engan veginn víst að nokkur einasti kjaftur hafi áhuga á að stíga um borð í Max-vélar Boeing í framtíðinni. Við hér teljum það 50/50 að hugsandi fólk kaupi flugfar með þeim rellunum alveg burtséð frá ákvörðunum flugmálayfirvalda. Þetta eru jú sömu flugmálayfirvöld og gáfu Boeing grænt ljós á klabbið í upphafi án þess að lyfta litlafingri og njóta minna trausts en svikahrappurinn Pálmi Haraldsson.

En fjárfestar eru ekkert að setja svoleis staðreyndir fyrir sig. Kaupa, kaupa og kaupa og vona það besta. Illu heillu eru þetta yfirleitt „sérfræðingar” hjá lífeyrissjóðum landsmanna. Sem oft á tíðum eru sömu „sérfræðingar“ og voru hjá íslensku bönkunum fyrir Hrunið…