Hin síðari ár, áratugi og jafnvel aldir hefur aldrei verið mikill skortur á góðum kaffihúsum í Vínarborg. Slík eru hér í hundraðatali og æði mörg þeirra komin vel til ára sinna. Tvö slík sérstaklega eru heimsóknar virði og ekki aðeins fyrir tilþrifamikil húsakynni heldur og fyrir fróðlega sögu.

Ekki amalegt umhverfið á Cafe Central en staðurinn hefur næsta lítið breyst síðan hann opnaði árið 1876. Mynd Phil King
Ekki amalegt umhverfið á Cafe Central en staðurinn hefur næsta lítið breyst síðan hann opnaði árið 1876. Mynd Phil King

Staðirnir tveir eru Café Central við Herrengasse og Cafe Landtmann við Lowelstraβe. Báðir íburðarmiklir og töluvert dýrir en hér er líka verið að drekka fyrsta flokks kaffi og meðlætið er fjarri því að kvarta yfir heldur.

Það er þó ekki öll sagan því fyrir rétt rúmum hundrað árum sátu hér á skrafi bæði menn sem þá þegar höfðu sett mark sitt á sögu mannkyns og áttu það eftir svo um munaði.

Cafe Landtmann er sagður hafa verið helsti áningastaður Sigmund Freud, föður sálgreiningar, en hann bjó lengst af í Vínarborg og fyrrum heimili hans og nú safn ekki langt hér frá.

Tæpum 400 metrum frá stendur svo Café Central með sínu glæsilega kúpta lofti, marmara í hólf og gólf og æði gómsæta smárétti í massavís. Sömuleiðis hér á sama tíma og Freud var þungt hugsi í Cafe Landtmann sátu nokkrir sem síðar komust í sögubækur. Þar fremstur í flokki byltingarsinninn Leon Trotzky sem um tíma er sagður hafa dregið hingað félaga sinn Joseph Stalin sem dvaldi um hríð hér í borg líka. Skeggrætt hafa þeir um heimalandið og máski lagt línur hér að því sem seinna varð.

Heimasíða Café Central segir frá nokkrum þeim mektarmönnum sem hér hvíldu bein á árum áður en eitt frægt nafn er þó hvergi þar að sjá. Hingað sótti nefninlega Adolf nokkur Hitler nokkuð ört og drakk kaffi lon og don því hér komst hann frítt í öll helstu dagblöðin. Hver veit nema hann hafi jafnvel setið á næsta borði við þá Stalín og Trotzky?

Segið svo að heimurinn sé ekki lítill.