V ið Íslendingar eigum því ekki að venjast þau skipti sem við sitjum ein á borði á veitingastað að hjá okkur setjist bláókunnugt fólk og panti sér mat eins og ekkert sé sjálfsagðara. Í Þýskalandi er slíkt þó talið afskaplega eðlilegt.

Það gilda ekki alveg sömu reglur og hefðir á þýskum veitingastöðum og annars staðar. Mynd bloomsburys

Það gilda ekki alveg sömu reglur og hefðir á þýskum veitingastöðum og annars staðar. Mynd bloomsburys

Það eru svona dæmi sem gera heiminn skemmtilegan og ferðalög með. Mismunandi hefðir og venjur gilda milli landa, milli héraða og jafnvel milli bæja. Hefðir sem oftast nær koma ferðafólki skemmtilega á óvart þó kannski sé ekki alltaf frábært að deila borði á betri veitingastað með bláókunnugum.

En hvað fleira um þýska veitingastaði væri gott að vita fyrir vankunnandi íslenskan ferðalang?

♥  Almennt er sú regla á þýskum veitingastöðum að þú sest sjálfur við næsta lausa borð. Það er sjaldnast nokkur þjónn að vísa til borðs eins og víða annars staðar er reglan.

♥  Sömuleiðis eru þýskir þjónar almennt ekki á tánum að skanna salinn. Það er yfirleitt gesturinn sem þarf að hóa í eða veifa þjóni þegar búið er að ákveða sig.

♥  Ekki gera þau mistök að biðja um vatn á þýskum veitingastað nema þú viljir greiða feitt fyrir. Vatnsglasið er nefninlega ekki ókeypis og kostar oft meira en gos eða bjór.

♥  Á bavarískum pöbbum og knæpum er oft að finna brauð og smárétti á borðum. Ekki halda eitt augnablik að það sé frítt. Barþjónar setja hiklaust allt sem þú setur inn fyrir varir beint á reikninginn.

♥  Á öllum betri veitingastöðum og mörgum í minni klassa kemur mörgum á óvart að það er salernisvörður að störfum. Sá hleypir engum á klósettið nema fá þjórfé fyrir. Þá er lítið gagn í kreditkorti ef fólk er ekki með klink á sér. Ein til tvær evrur duga vel.

♥  Almennt er reglan að skilja eftir þjórfé hvort sem fólki líkaði maturinn eða ekki. Hér gildir hið gamalkunna að bæta 10 til 15 prósent ofan á reikninginn og rúna hann upp.