F erðalög vestrænna ferðalanga til Kína færast mjög í vöxt og eðlilega enda fjölmargt stórkostlegt að sjá og upplifa í því stóra landi. Það er þó einn mánuður sérstaklega sem kannski er ekki vel fallinn til ferðalaga í Kína.

Ekki er lítið lagt í hátíðarhöldin 1. október ár hvert í Kína og sannarlega sjónarspil að sjá. En mannþröngin er slík að ekki er víst að ánægjan ein sitji eftir
Það eru fyrstu vikur októbermánaðar ár hvert en þann 1. þess mánaðar halda Kínverjar upp á þjóðhátíðardag sinn með pompi og prakt. Það er líka þá sem ein af þremur svokölluðum Gullnu vikum hefjast í landinu en þá fá flestir launþegar launað frí í sjö samfellda daga hið minnsta samkvæmt þarlendum lögum.
Það er ekki dónalegt að vitna hátíðarhöldin yfir þjóðhátíðardaginn og þeim er mikið fagnað í öllum borgum og bæjum. En mannfjöldinn er bara slíkur yfir þann dag og sömuleiðis næstu daga á eftir að afar erfitt er að njóta nokkurs hlutar mjög vel.
Ferðalög öll innanlands eru afar erfið um þennan tíma enda nota þær milljónir Kínverja sem vinna í borgum en búa í strjálbýli Gullnu vikurnar til að halda á heimaslóðir. Flug, lestir og rútur þennan tíma eru úttroðnar og vitaskuld velflestir vegir í landinu eru pakkaðir betur en sardínur í dós. Kemur fram í opinberum gögnum að 86 milljónir manna ferðuðust um þjóðvegi landsins Gullnu vikuna í október 2014. Það eru örlítið fleiri en þvælast úr Reykjavík fyrir Verslunarmannahelgi sem þó telst vera mikill ferðatími.
Með öðrum orðum; þó hátíðarhöldin séu heillandi er hætt við að ferð um Kína þennan tíma fari fyrir lítið sökum mannfjölda. Og það vita þeir sem ferðast hafa að sífelldur mannfjöldi, þvaga og læti taka toll fyrir utan allt annað.