S tórborgir heimsins luma nánast undantekningarlaust á ýmsu forvitnilegu sem ekki endilega kemst á síður ferðahandbóka. London þar engin undantekning.

Reisulegt musteri svo ekki sé meira sagt. Og það steinsnar frá Wembley. Mynd Nick Garrod

Reisulegt musteri svo ekki sé meira sagt. Og það steinsnar frá Wembley. Mynd Nick Garrod

Ferðaglaðir Íslendingar hafa líklega velflestir heimsótt London oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og séð allt þetta hefðbundna í bak og fyrir. En hvað með þetta óhefðbundna?

Hér eru þrír staðir í borginni sem velþekktir eru meðal borgarbúa og svo sem ekki alveg óþekktir meðal ferðafólks heldur. En voru galtómir af fólki þegar við kíktum í heimsókn.

♥  Hindúamusterið >  Steinsnar frá hinum fræga fótboltaleikvangi Wembley er að finna merkilega stórt og fallegt hindúamusteri. Það stendur eins og skrattinn úr sauðaleggnum, marmarahvítt og teygir sig hátt til himins umkringt fallega skreyttum garði. Formlegt nafn þess er Shri Swaminarayan Mandir en Bretarnir kalla þetta Neasden musterið. Þetta er eitt allra fyrsta musteri hindúa sem reis utan Indlands og er enn eitt það allra stærsta. Heimasíðan.

♥  Eltham höllin > Sveitasetur sem eru það stór og falleg að óhætt er að tala um hallir en ekki setur er víða að finna í Bretlandi en undantekningarlítið úti í sveitum landsins eins og nafnið gefur til kynna. Ein undantekning finnst í Greenwich þar sem Eltham höllin stendur eins og ekkert sé sjálfsagðara. Þetta var eitt fallegasta setur landsins þegar það var reist, að mestu leyti í svokölluð art deco stíl og ein örfárra miðaldabygginga landsins sem staðist hefur tímans tönn nánast fullkomlega. Ekki klikka á að skoða klósettaðstöðuna sem er skreytt gulli í hólf og gólf. Heimasíðan.

♥  Vindmyllusafnið > Fáir tengja London eða Bretland við vindmyllur enda reikar hugur strax yfir Ermasundið til Hollands varðandi slík mannvirki. Hér voru þó nokkrar sams konar vindmyllur reistar á sínum tíma og ekki langt á eftir þeim hollensku. Í London hefur ein slík verið endurbyggð frá grunni en þess gætt að brúka til verksins eingöngu verkfæri þess tíma. Wimbledon Windmill heitir staðurinn og kemur skemmtilega á óvart. Heimasíðan.