Skip to main content
golfTíðindi

Golfið ódýrt í Marokkó

  07/09/2012febrúar 3rd, 2021No Comments

Síðan hið hrapallega fall íslensku krónunnar í október 2008 átti sér stað hafa íslenskir ferðalangar neyðst til að neita sér um ýmsar þær freistingar sem áður þóttu næsta sjálfsagðar. Golfferðir er einn angi sem orðið hefur nokkuð úti enda kostar einn hringur á sæmilegum völlum á Spáni eða í Portúgal vart undir 12 þúsund krónum og flestir betri vellir mun dýrari en það.

En það er ennþá ljós í myrkrinu fyrir þá sem vart lifa hamingjusamlega án nokkurra hringja þar sem regn og vindur koma ekkert við sögu. Marokkó er einn slíkur og það sem gerir það fýsilegt land til heimsóknar er hversu stutt það er frá Spáni eða Portúgal. Það er semsagt hægt að koma sér í ódýrt golf en það þarf að hafa aðeins meira fyrir því en áður.

Flogið er til Tangier frá London og meira að segja lágfargjaldafélögin Easyjet og Ryanair bjóða á stundum upp á flug til Marokkó.

Vænlegast af öllu er þó að verða sér úti um eins ódýrt flug frá Íslandi til London og hægt er og fljúga þaðan með öðru hvoru lágfargjaldafyrirtækinu til staða á borð við Jerez, Almería eða Malaga á Spáni. Með sæmilegum fyrirvara á að vera hægt að komast þangað alla leið fyrir 30 til 40 þúsund krónur báðar leiðir. Ferjur fara frá Malaga, Almería og Algeciras til Marokkó og er algengt verð á mann 25 evrur (2009) aðra leiðina eða 100 evrur sé bíll með í för.

Þá er aðeins eftir að verða sér úti um hótel sem nóg er af í landinu og drífa sig á næsta golfvöll. Þeir eru reyndar ekki margir en flestir sæmilegir eða góðir og það sem mest er um vert er að meirihlutinn kostar kylfinginn kringum fjögur þúsund krónur og þeir allra dýrustu aðeins rúmar 6 þúsund krónur. Sem vissulega er ekki gefið en helmingi ódýrara en að spila 50 mínútum norðar á Spáni eða í Portúgal. Þegar allt snýst um golfið og spila á fimm hringi eða fleiri í fríinu telur talsvert hvort hringurinn kostar fjögur eða tólf þúsund. Í þokkabót er veðrið ekki síðra þó vissulega megi deila um hvort 35 til 40 stiga hiti sé gott eða slæmt.

Marrakesh

Palmeraie Golf Palace 18 holur par 72 Verð pr. hring (2009) 8000 kr.

Amelkis Golf Club 18 holur par 72 Verð pr. hring (2009) 7000 kr.

Marrakech Royal Golf Club 18 holur par 72 Verð pr. hring (2009)

El Jadida

El Jadida Royal Golf Course 18 holur par 72 Verð pr. hring (2009) 5700 kr.

Rabat

Royal Dar-Es-Salam Golf Club 18 holur par 73 Verð pr. hring (2009) 6300 kr.

Tangier

The Royal Country Club 18 holur par 71 Verð pr. Hring (2009) 8400 kr.