V erði svokallaðar „allt innifalið“ ferðir vinsælli en þær þegar eru mun ferðamennska í Grikklandi, Tyrklandi, Mexíkó, Dóminíkanska, Zanzibar, Egyptalandi og jafnvel á Spáni og í Portúgal í framtíðinni verða afar einhliða og leiðinleg.

Allt innifalið ferðir njóta sívaxandi vinsælda en hversu lengi gengur slíkt þegar sannað þykir að slíkt skilar nánast engu til þeirra landa eða staða sem slíkt bjóða

Allt innifalið ferðir njóta sívaxandi vinsælda en hversu lengi gengur slíkt þegar sannað þykir að slíkt skilar nánast engu til þeirra landa eða staða sem slíkt bjóða

Ástæðan er að nú þegar reynsla er komin á allt innifalið ferðapakka hefur sýnt sig að á þeim stöðum þar sem slíkt er í boði fara fyrirtæki önnur á svæðinu mjög gjarnan í þrot eða hætta starfsemi. Þau geta ekki keppt við stórar hótelkeðjur sem bjóða gestum upp á allt innifalið og kaupa flest eða allt af einu og sama fyrirtæki sem stundum er einnig í eigu hótelanna sjálfra og flytja jafnvel inn allan kost ofan í gesti.

Þetta hefur í för með sér að latir vestrænir gestir láta sér oftar en ekki nægja að drekka, borða og njóta skemmtiatriða og afþreyingar á einu og sama hótelinu. Viðskipti við bari, veitingastaði og önnur fyrirtæki á svæðinu fara ört minnkandi og þeim fyrirtækjum fækkar jafnt og þétt. Sem aftur hefur í för með sér að bæir og staðir verða innantómari og hafa enn síður aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Staðan er býsna alvarleg orðin á stöku stöðum enda raunin sú að flest hótel og keðjur sem bjóða allt innifalið pakka eru í stórum meirhluta í eigu erlendra aðila og því skilar ferðamennska á mörgum stöðum afar litlu í kassann á viðkomandi stað eða landi.

Mjög gott dæmi um þetta er Cancún í Mexíkó sem er nánast fæðingarstaður „allt innifalið“ pakkans. Nú tuttugu árum síðar er eingöngu líf á strandlengjunni við lúxushótelin. Bærinn sjálfur, sem heillaði marga hér áður, er niðurníddur draugabær og veitingastöðum þar fækkað um 80 prósent síðan 1990.

Samtökin Tourism Concern sem berjast fyrir því að ferðamenn skilji eitthvað eftir sig í þeim löndum þar sem þeir dvelja hafa reiknað út að aðeins tíu prósent þess sem ferðamenn í Tyrklandi eyða skilar sér í þarlendan efnahag. Rúmlega 90 prósent fer beint í vasa erlendra aðila sem hótelin flest eiga og reka. Sama staða er komin upp á Costa del Sol á Spáni og viðskiptaráð Andalúsíu hefur opinberlega lýst áhyggjum af stöðunni.

Verst þykir þó ástandið í fátækari löndum á borð við Tanzaníu og sérstaklega Dóminíkanska lýðveldinu en í hinu síðarnefnda eru 98 prósent hótela í landinu í eigu útlendinga. 80 prósent þeirra bjóða ekkert annað en allt innifalið gistipakka.

Með öðrum orðum; engir fjármunir skila sér til þess fólks sem býr í því landi sem ferðamenn eru að njóta. Allt fer í vasa herra Hilton eða hvað þeir heita allir hótelmógúlar heims sem selja aðgang að dásemdum ýmissa staða og landa en leyfa heimamönnum ekki að njóta með. Enda varla tilviljun að allt innifalið pakkar eru sjaldan eða aldrei í boði á vinsælli áfangastöðum í ríkari löndum heims.

Fararheill mælir með að hugsa málið til enda. Þetta er ekki góð þróun fyrir neinn nema vellauðuga hóteleigendur.