Skip to main content

Á rið 1979 hefði fólki fyrirgefist að stoppa stutt í borginni Shenzhen í Kína enda þar nákvæmlega ekkert að sjá. Eini iðnaður þeirra 300 þúsund sálna sem þar bjuggu byggðist alfarið á fiskveiðum. Hraðspólum til ársins 2020 og enn þykir Shenzen að mestu leyti nauðaómerkilegur staður þó þar búi nú tólf milljónir. En þar er þó ein risastór, mikil og æði sérstök verslunarmiðstöð.

Sex hæðir af glingri og glysi og það næstum allt saman falsvörur. Mynd Burkhard Schmidt

Sex hæðir af glingri og glysi og það næstum allt saman falsvörur. Mynd Burkhard Schmidt

Það eru reyndar fjöldamargar verslunarmiðstöðvar í Shenzhen og tölur um þær á reiki en að minnsta kosti tæpar 30 talsins. Þær miðstöðvar voru þó ekki reistar fyrir heimamenn hér heldur þær milljónir ferðamanna sem hingað koma frá Hong Kong til að versla enda verðlag hér langt undir því sem gerðist og gerist í hafnarborginni Hong Kong.

En ein verslunarmiðstöð sérstaklega, Luohu Commercial City, hefur öðlast meiri frægð en aðrar hér í borg. Sú frægð byggir á því að innandyra er mikill meirihluti vara til sölu, vel yfir 90% falsvörur.

Hér er sannarlega hægt að fá og finna flest undir heiminum og sé það ekki til tekur enga stund að færa það til betri vegar. Hvort sem það er nýjasta veskjatískan frá Dolce & Gabbana eða nákvæmar eftirmyndir Pablo Picasso þá er það í boði hér og það fyrir tiltölulega lítinn pening. Ekki síst heillar marga að tískuvörur eru stundum komnar í hillurnar hér áður en þær eru formlega settar í sölu af framleiðendum í Bandaríkjunum eða Evrópu.

Alls ekki óþekkt að finna slíkar falsvörur á götumörkuðum í flestum stærri borgum Suðaustur Asíu. En það er sannarlega merkilegt að finna heila verslunarmiðstöð sem nánast sérhæfir sig í slíku og kemst upp með það líka…