Allsérstök óformleg keppni átti sér stað í Kaliforníu í gær þar sem hópur hjólreiðamanna atti kappi við flugvél á stuttri vegalengd milli Burbank og Long Beach. Hjólreiðafólkið var miklu fljótara í ferðum.
Ákvað flugfélagið JetBlue í gær að bjóða farþegaflug milli þessara staða eftir að þjóðveginum þarna á milli var lokað í gær en vegurinn sá er fjölfarinn mjög. Aðeins eru þó 49 kílómetrar þarna á milli.
Í kjölfarið ákvað hópur hjólreiðamanna að fara sömu leið og freista þess að verða fljótari í förum og það urðu þeir svo sannarlega. Var hjólreiðafólkið 1:34 klst. á leiðinni á milli meðan farþegar JetBlue komust á áfangastað á 2:54 klst.
Vitaskuld var flugið sjálft fljótara en tímann sinn tekur að koma sér á flugvöllinn, tékka sig inn og koma sér um borð og sá tími breytti öllu hjólreiðafólkinu í hag.
Afar hæpið má þó telja að þetta gildi um lengri vegalengdir en 50 kílómetra auk þess sem þetta farþegaflug JetBlue var aðeins til prufu enda alla jafna ekki flogið af hálfu stóru flugfélaganna bandarísku svo stuttar vegalengdir.
Þá má víst telja að farþegar séu almennt töluvert lengur gegnum öryggisskoðun á flugvöllum í Bandaríkjunum en nokkurn tíma hérlendis svo ritstjórn Fararheill myndi setja pening á flugfélag í sambærilegri keppni hérlendis.
View Burbank til Long Beach Kaliforníu in a larger map






