Allir ferðaþyrstir þarna úti vita sem er að sætisrými á almennu farrými hjá flestum flugfélögum heims fer minnkandi ár frá ári nánast. Orðatiltækið sardínufarrými á sannarlega við um sætisrými hjá þeim verstu þarna úti. En þegar við héldum að það gæti ekki orðið verra…
Hjá tilteknum flugfélögum er sætisrými, gróflega bilið milli höfuðpúða í sætaröð, svo lítið sem 71 til 72 sentimetrar. Wow Air var, þegar það var og hét, verst þeirra flugfélaga sem hingað flugu með 73 sentimetra sætisrými en flugfélagið Ryanair býður gjarnan upp á minna pláss en það. Sætisrými hjá easyJet, Wizz Air og Norwegian nær þó yfirleitt 76 sentimetrum.
Plássið þegar sætisrými er aðeins 71 til 72 sentimetrar svo lítið að matarbakki leggst gjarnan upp að maga venjulegs manns, hné snerta jafnvel sætið fyrir framan og þurfi gluggafarþegi á klósettið er enginn möguleiki að smeygja sér framhjá vandræðalaust. Allir þurfa að standa upp og færa sig út á gang til að hægt sé að komast. Sé fólk í yfirvigt eða einfaldlega hávaxnara en normið getur flug í slíku rými verið vægast sagt hörmulegt og jafnvel hættulegt. Blóðtappar myndast enn frekar þegar beygja þarf hné á ská til að koma sér bærilega fyrir.
En viti menn! Það eru raunverulega flugfélög þarna úti sem eru að skoða í fúlustu alvöru að minnka þetta pláss enn meira.
Dagblaðið Chicago Tribune greindi frá því nýlega að eitt stærsta flugfélag Bandaríkjanna, American Airlines, hefði íhugað að koma fyrir sætum með sætisbili niður í 68 sentimetra í nýjum vélum. Hætt var við það á síðustu stundu.
En það virðist sannarlega markaður fyrir að troða viðskiptavinum í vél eins og síld í tunnu. Bæði Airbus og ítalska fyrirtækið Aviointeriors hafa þróað og framleitt svona hálfsæti eins og við kölluð það og sjá má á meðfylgjandi mynd. Þetta í raun ekkert annað en hjólahnakkur með litlu sætisbaki og fólk stendur fræðilega í lappirnar í þessum sætum alla leiðina.
Ítalski framleiðandinn segist hafa fengið miklar undirtektir frá hinum ýmsu flugfélögum og sér fram á góða sölu í framtíðinni!!!
NEI TAKK.