A llar götur síðan 1994 hafa verið tveir gjaldmiðlar á Kúbu. Einn fyrir skítugan lýðinn og annar fyrir efnað erlent ferðafólk. En ekki lengur.

„Útlendingagjaldmiðill“ Kúbu heyrir nú sögunni til.

 

Kúbufarar þekkja þetta á eigin skinni. CUP var gjaldmiðill heimafólks en allt ferðafólk gat aðeins tekið út og greitt fyrir vörur og þjónustu með svokölluðum CUC. Síðarnefndi gjaldmiðillinn löngum tengdur bandarískum dollar sem gaf duglega eftir þegar ferðamennska fór á ís á Kúbu í Kófinu eins og annars staðar.

Ekki ólíklegt að Castró sé að velta sér um í gröf sinni en stjórnvöld á Kúbu hafa nú formlega sent ferðamannagjaldeyrinn CUC á haugana. Eftirleiðis verður bara einn og sami gjaldeyririnn á eynni. Kúbanski heimapesóinn CUP, eftirleiðis þekktur sem Moneda Nacional, verður hinn eini sanni.

Heimamenn tapa en ferðafólk ekki

Hvað merkir þetta fyrir Jón og Gunnu Íslendinga á leið til Kúbu?

Þetta er tiltölulega flókið prógramm en í stuttu máli má segja að heimafólk tapi en ferðafólk framtíðarinnar heldur sínu. Ekki aðeins var um myntbreytingu að ræða heldur var heimapesóinn gjaldfelldur um leið og eðli máls samkvæmt hefur verðbólga risið hratt. Það er sem sagt töluvert erfiðara fyrir Kúbverja að draga fram lífið nú en fyrir áramót.

Ekki svo að skilja að ferðamennska sé mikil á eynni þessi dægrin en þeir sem þangað fara með dollara eða evrur munu njóta töluvert lægra vöruverðs en áður var. Það í ofanálag við að verslun og þjónusta sem erlent ferðafólk gat áður fyrr ekki notfært sér er nú öllum opin. Ekki lengur sérverslanir fyrir heimafólk og aðrar fyrir útlendinga.

Með öðrum orðum: dvöl á Kúbu kostar erlenda ferðamenn minna næstu misseri og jafnvel árin en hallæri heimamanna versnar.