Við eins og aðrir lesendur Fréttablaðsins um helgina rákum augun í heilsíðuauglýsingu um nýjan áfangastað Heimsferða. Alltaf frábært að fá meira og betra val og Agadir í Marokkó er orðinn nokkuð klassískur ferðamannastaður enda verið í boði annars staðar frá í vel yfir tíu ár. En eitthvað er bogið við uppgefið verð á ferðinni.
Reyndar er aðeins um eina ferð að ræða sem tekur átta daga og það um mánaðarmótin október, nóvember. Allnokkur hótel í boði og verðlagning virðist vera bærileg. Lægsta verð er 103.900 á mann miðað við fjögurra manna fjölskyldu á Tulip Inn Oasis sem setur kannski engan á höfuðið en hver er að taka börnin heila viku úr skólanum í október? Varla er það til eftirbreytni nú þegar þorri unglinga á bágt með lestur svo dæmi sé tekið.
Nærri lagi væri að auglýsa lægsta verð miðað við tvo saman sem fæst ódýrast á 116.900 með hálfu fæði á þriggja stjörnu hóteli. Ofangreind verð eru víst með sérstökum fimmtán þúsund króna bókunarafslætti fram til 1. júlí.
Burtséð frá því að miða verð við hina hefðbundnu fjögurra manna fjölskyldu er annað mál og verra í gangi. Á bókunarvef Heimsferða finnst alls ekkert herbergi á auglýstu verði á Tulip Inn Oasis eins og sjá má á meðfylgjandi skjáskoti. Þar kostar herbergi fyrir tvo fullorðna og tvö börn allt í einu 109.4oo krónur! Þar munar 5.500 krónur per haus eða samtals 22 þúsund krónum alls.
Slíkt er ólöglegt og kannski einhver vakni hjá Neytendastofu eins og einu sinni. Það er langsótt og á meðan ættu þeir sem hyggja á ferð með tvö börn sín yngri en tólf ára að krefjast þess að fá ferðina á auglýstu verði. Ellegar kæra.